Hornbrekka - samningur við Sjúkratrygginar Íslands

Málsnúmer 2204077

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 739. fundur - 28.04.2022

Lagt fram til kynningar samkomulag Sjúkratrygginga Íslands og Fjallabyggðar um framlengingu á samningi um rekstur þjónustu hjúkrunarheimilis að Hornbrekku, Ólafsfirði, dags. 20. desember 2019 ásamt fylgiskjölum.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 884. fundur - 17.07.2025

Fyrir liggur samkomulag um framlengingu á samningi við Sjúkratryggingar sem gert var árið 2022 en umrætt samkomulag er nú runnið út.
Vísað til afgreiðslu starfsmanns
Bæjarráð felur bæjarstjóra að kanna möguleika á breytingum á samningi við Sjúkratryggingar Íslands m.t.t. einingaverðs og greiðslna vegna hjúkrunar- og dvalarrýma. Áhersla verði lögð á hækkun á greiðslum vegna sérlega kostnaðarsamrar þjónustu enda liggur fyrir að framlag ríkis til reksturs stofnunarinnar stendur ekki undir kostnaði.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 887. fundur - 21.08.2025

Fyrir liggur vinnuskjal frá bæjarstjóra þar sem greint er frá rekstrarstöðu stofnunarinnar undanfarin ár. Bæjarstjóri lýsir yfir áhyggjum af hallarekstri sem hefur verið hjá stofnuninni undanfarin ár en þjónustan er lögbundin þjónusta ríkisins og því ekki á ábyrgð bæjarsjóðs. Bæjarstjóri leggur til að málið verið tekið til umfjöllunar í Velferðarnefnd Fjallabyggðar.
Vísað til nefndar
Bæjarráð vísar málinu til umfjöllunar í Velferðarnefnd og óskar jafnframt eftir frekari upplýsingum í kjölfar þeirrar umfjöllunar.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 888. fundur - 27.08.2025

Bæjarstjóri greindi frá því að hann og sviðsstjóri Velferðarsviðs Fjallabyggðar hefðu fundað með starfsfólki Hornbrekku þriðjudaginn 26.ágúst þar sem farið var yfir ýmis málefni tengd stofnuninni í framhaldi af umræðum á síðasta fundi bæjarráðs Fjallabyggðar.
Lagt fram til kynningar
Lagt fram til kynningar

Velferðarnefnd Fjallabyggðar - 2. fundur - 03.09.2025

Sunna Haraldsdóttir, starfandi forstöðumaður, kom á fund nefndarinnar og fór yfir starfsemi Hornbrekku vítt og breytt. Hornbrekka hefur fengið viðurkenningu sem Edenheimili. Að vera viðurkennt Eden heimili er ákveðinn gæðastimpill sem segir til um að hjúkrunarheimilið hefur sett sér markmið og ákveðna framtíðarsýn um að vinna með Eden stefnuna. Að vinna með Eden er að þróa samfélag sem leggur áherslu á að viðhalda og efla lífsgæði einstaklinga sem njóta stuðnings við athafnir daglegs lífs sem og huga að vellíðan starfsfólks og aðstandenda.
Félagsstarfið á Hornbrekku er með miklum blóma en mikil þrengsli setja starfinu takmörk.
Mikil ásókn er í dvöl á Hornbrekku og meiri en hægt er að verða við.
Samstarf er á milli elstu bekkja grunnskólans, leikskólans og Hornbrekku sem er afar gefandi.
Flestar stofnanir af þessu tagi eiga við mönnunarvandamál að etja og mikilvægt að horfa til framtíðar hvað það varðar þó staðan sé góð á Hornbrekku núna. Þörf er á að bjóða uppá reglulega endurmenntun sem og að starfsfólk sem vill fara í nám fái stuðning þar sem verkefnin verða fjölbreyttari með hverju árinu.
Fyrir velferðarnefnd liggur erindi frá bæjarráði vegna Hornbrekku.
Vísað til afgreiðslu bæjarstjórnar
Velferðarnefnd Fjallabyggðar leggur til við bæjarstjórn Fjallabyggðar að samningi sveitarfélagsins við Sjúkratryggingar Íslands og Heilbrigðisráðuneytið vegna reksturs Hornbrekku verði sagt upp og rekstri heimilisins verði komið að nýju í hendur ríkisins. Tryggja verður að samfella verði í rekstri heimilisins, þjónusta verði tryggð og að ekki komi til uppsagna starfsfólks við stofnunina.

Ljóst er að starfsemi Hornbrekku sem dvalar- og hjúkrunarheimilis er mikilvæg fyrir sveitarfélagið Fjallabyggð og íbúa þess, bæði hvað varðar þá þjónustu sem þar er innt af hendi og þá atvinnu sem íbúar njóta af starfseminni.

Á Hornbrekku eru stöðugildi um 28 en fastir starfsmenn eru 38 auk þess sem 16 starfsmenn sinna afleysingum í ýmsum störfum tengdum rekstri stofnunarinnar. Gríðarlega mikilvægt er að þessi þjónusta haldist í sveitarfélaginu, að íbúar svæðisins njóti þessarar þjónustu í sinni heimabyggð og ekki síður að þau störf sem starfseminni fylgir haldist innan sveitarfélagsins.
Verkefnið er þó ekki á ábyrgð sveitarfélagsins lögum samkvæmt heldur er það á höndum ríkisvaldsins og því mjög mikilvægt að skoða heildarmyndina og í hvað stefnir varðandi reksturinn.

Undanfarin ár hefur rekstur Hornbrekku verið afar íþyngjandi fyrir Fjallabyggð og í raun gert ráð fyrir því í áætlunum að áfram verði mikill hallarekstur á starfseminni. Við slíka stöðu er ekki hægt að una þegar rekstur hjúkrunarheimila á landinu er á ábyrgð ríkisins en ekki sveitarfélaga og það er í hæsta máta óeðlilegt að íbúar greiði niður rekstur sem er á ábyrgð ríkisins með þessum hætti til fjölda ára um jafnvel tugi milljóna árlega. Þeim fjármunum sem farið hafa í hallarekstur heimilisins er betur varið í aukna þjónustu, lækkun gjalda eða auknar fjárfestingar í þeim málaflokkum sem sannanlega eru á ábyrgð sveitarfélagsins. Umleitanir um hækkun rekstrarframlaga frá ríkinu hafa litlu sem engu skilað og því hallarekstur aukist undanfarin ár.

Bæjarstjórn Fjallabyggðar - 261. fundur - 04.09.2025

Velferðarnefnd Fjallabyggðar lagði til við bæjarstjórn á fundi sínum þann 3.september s.l. að samningi Fjallabyggðar við Sjúkratryggingar Íslands og Heilbrigðisráðuneytið vegna reksturs hjúkrunarheimilisins Hornbrekku verði sagt upp og rekstri heimilisins verði komið að nýju í hendur ríkisins.
Samþykkt
Til máls tók S.Guðrún Hauksdóttir

Bæjarstjórn staðfestir með 7 atkvæðum tillögu Velferðarnefndar Fjallabyggðar um uppsögn á samningi við Sjúkratryggingar Íslands og Heilbrigðisráðuneytið vegna reksturs hjúkrunarheimilisins Hornbrekku og felur bæjarstjóra og sviðsstjóra velferðarsviðs að vinna málið áfram. Bæjarstjórn leggur áherslu á að tryggt verði að samfella verði í rekstri Hornbrekku og þjónusta og starfsmannahald verði óbreytt.