Bæjarstjórn Fjallabyggðar

261. fundur 04. september 2025 kl. 17:00 - 18:00 í Tjarnarborg Aðalgötu 13 Ólafsfirði
Nefndarmenn
  • S. Guðrún Hauksdóttir forseti
  • Tómas Atli Einarsson 2. varaforseti
  • Helgi Jóhannsson aðalfulltrúi
  • Guðjón M. Ólafsson 1. varaforseti
  • Sæbjörg Ágústsdóttir aðalfulltrúi
  • Þorgeir Bjarnason aðalfulltrúi
  • Arnar Þór Stefánsson aðalfulltrúi
Starfsmenn
  • Þórir Hákonarson bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Þórir Hákonarson bæjarstjóri

1.Samningur um Barnaverndarþjónustu á Mið - Norðurlandi

Málsnúmer 2301022Vakta málsnúmer

Á fundi Velferðarnefndar Fjallabyggðar þann 3.september beindi nefndin því til bæjarstjórnar að segja upp samningi um Barnaverndarþjónustu Mið-norðurlands þar sem fyrirhugað er að ganga til samninga við Barnaverndarþjónustu Norðurlands-eystra.
Samþykkt
Bæjarstjórn staðfestir með 7 atkvæðum tillögu Velferðarnefndar Fjallabyggðar um uppsögn á samningi um barnaverndarþjónustu Mið-Norðurlands og felur bæjarstjóra og sviðsstjóra velferðarsviðs að tilkynna um uppsögn samnings.

2.Barnaverndarþjónusta á Norðurlandi eystra

Málsnúmer 2508035Vakta málsnúmer

Á fundi Velferðarnefndar Fjallabyggðar þann 3.september beindi nefndin því til bæjarstjórnar Fjallabyggðar að ganga til samninga við Barnaverndarþjónustu Norðurlands-eystra ásamt Akureyrarbæ, Dalvíkurbyggð, Eyjafjarðarsveit, Grýtubakkahreppi, Hörgársveit, Langanesbyggð, Norðurþingi, Svalbarðsstrandarhreppi, Tjörneshreppi og Þingeyjarsveit á grundvelli fyrirliggjandi samningsdraga.
Samþykkt
Bæjarstjórn staðfestir með 7 atkvæðum tillögu Velferðarnefndar Fjallabyggðar um þátttöku Fjallabyggðar í barnaverndarþjónustu á Norðurlandi eystra sem felur í sér aukna þjónustu í málaflokknum og felur bæjarstjóra og sviðsstjóra velferðarsviðs að ganga frá undirritun samnings þess efnis sem liggur nú fyrir bæjarstjórn.

3.Deiliskipulag - Leirutangi

Málsnúmer 2107019Vakta málsnúmer

Á fundi sínum þann 20.ágúst s.l. bókaði Skipulags - og umhverfisnefnd Fjallabyggðar eftirfarandi vegna tillögu Báss ehf. um breytingu á deiliskipulagi Leirutanga.

"Nefndin stendur við fyrri afstöðu sína um að starfsemi Báss ehf. á Leirutanga verði fest í sessi á svæði, að beiðni fyrirtækisins. Hugmyndir fyrirtækisins um afmörkun athafnasvæðis með mönum og gróðri falla vel að fyrri stefnu bæjarstjórnar um þróun svæðisins. Nefndin óskar eftir afstöðu bæjarstjórnar til hvort að:
1) Beiðni Báss ehf. verði hafnað.
2) Skipulagsferlið verði hafið að nýju, með auglýsingu skipulagslýsingar og samhliða breytingu á aðalskipulagi.
3) Skipulagstillaga Báss ehf. verði tekin inn í heildarendurskoðun deiliskipulags svæðisins með samhliða breytingum á aðalskipulagi, ef þörf krefur."
Samþykkt
Til máls tóku S.Guðrún Hauksdóttir, Helgi Jóhannsson, Guðjón M Ólafsson, Arnar Þór Stefánsson og Tómas Atli Einarsson.

Bæjarstjórn samþykkir með 7 atkvæðum að skipulagstillaga Báss ehf. verði tekin inn í heildarendurskoðun deiliskipulags svæðisins með samhliða breytingum á aðalskipulagi ef þörf krefur og er það í samræmi við tillögu 3 í bókun skipulags- og umhverfisnefndar frá 20.ágúst s.l.

4.Hornbrekka - samningur við SÍ

Málsnúmer 2204077Vakta málsnúmer

Velferðarnefnd Fjallabyggðar lagði til við bæjarstjórn á fundi sínum þann 3.september s.l. að samningi Fjallabyggðar við Sjúkratryggingar Íslands og Heilbrigðisráðuneytið vegna reksturs hjúkrunarheimilisins Hornbrekku verði sagt upp og rekstri heimilisins verði komið að nýju í hendur ríkisins.
Samþykkt
Til máls tók S.Guðrún Hauksdóttir

Bæjarstjórn staðfestir með 7 atkvæðum tillögu Velferðarnefndar Fjallabyggðar um uppsögn á samningi við Sjúkratryggingar Íslands og Heilbrigðisráðuneytið vegna reksturs hjúkrunarheimilisins Hornbrekku og felur bæjarstjóra og sviðsstjóra velferðarsviðs að vinna málið áfram. Bæjarstjórn leggur áherslu á að tryggt verði að samfella verði í rekstri Hornbrekku og þjónusta og starfsmannahald verði óbreytt.

5.Endurskoðun á samþykkt um stjórn Fjallabyggðar

Málsnúmer 2310018Vakta málsnúmer

Í ljósi uppsagnar á samningi um barnaverndarþjónustu á Mið-Norðurlandi og samþykktar á samningi um Barnaverndarþjónustu á Norðurlandi eystra liggur fyrir tillaga að breytingum á samþykktum um stjórn Fjallabyggðar til fyrri umræðu:

„47.grein samþykkta um stjórn Fjallabyggðar breytist á þann veg að út fellur núverandi ákvæði D-5 sem er svohljóðandi:

5. Barnaverndarþjónusta á Mið-Norðurlandi. Samkvæmt samningi um rekstur barnaverndarþjónustu á Mið-Norðurlandi, sbr. auglýsingu nr. 1627/2022, fer sveitarfélagið Skagafjörður með verkefni barnaverndarþjónustu samkvæmt 10. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, sem ekki eru falin öðrum.

Í stað þess kemur nýtt ákvæði D-5 sem verði svohljóðandi:
5. Barnaverndarþjónusta á Norðurlandi eystra. Samkvæmt samningi um rekstur barnaverndarþjónustu á Norðurlandi eystra fer Akureyrarbær með verkefni barnaverndarþjónustu samkvæmt skv. 10., 11. og 12. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og 96. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sem ekki eru falin öðrum.„
Samþykkt
Tillaga um breytingu á samþykkt um stjórn Fjallabyggðar samþykkt með 7 atkvæðum og vísað til síðari umræðu í bæjarstjórn.

Fundi slitið - kl. 18:00.