Samþætting þjónustu í þágu farsældar barna

Málsnúmer 2101038

Vakta málsnúmer

Félagsmálanefnd Fjallabyggðar - 128. fundur - 15.01.2021

Lögð fram til kynningar drög að frumvarpi til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna er ætlað að stuðla að samvinnu aðila. Þar er fjallað um samþættingu þjónustu margra þjónustukerfa sem starfa með stoð í lögum og veita þjónustu sem skiptir máli fyrir farsæld barns, þ.m.t. menntun, heilbrigðisþjónusta, félagsþjónusta og löggæsla.

Félagsmálanefnd Fjallabyggðar - 132. fundur - 28.05.2021

Meginmarkmið frumvarpsins er að búa til umgjörð í lögum sem stuðlar að því að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana.
Frumvarpið tekur til þjónustu sem er veitt innan alls skólakerfisins, þjónustu sem er veitt innan heilbrigðiskerfisins og félagsþjónustu sem er veitt í þágu barna innan sveitarfélaga, auk verkefna lögreglu. Aðrir sem vinna með börnum, til dæmis hjá íþrótta eða æskulýðsfélögum, bera líka skyldur og geta tekið þátt í samþættingu þjónustu.
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að félags- og barnamálaráðherra beri ábyrgð á samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og hafi eftirlit með framkvæmd laganna. Samhliða frumvarpi til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna leggur félags og barnamálaráðherra fram tvö önnur frumvörp, annars vegar til laga um Barna- og fjölskyldustofu og hins vegar til laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 708. fundur - 09.09.2021

Lagt fram bréf Sambands íslenskra sveitarfélaga dags. 30. ágúst 2021, efni bréfsins varðar innleiðingu laga um samþætta þjónustu í þágu barna. Í bréfinu kemur fram hvatning stjórnar sambandsins hvað varðar að hefja undirbúning innleiðingar laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna og að slíkur undirbúningur geti falið í sér endurskoðun verkferla með aukinni áherslu á samhæfingu þvert á svið.
Vísað til umsagnar
Bæjarráð samþykkir að fela deildarstjóra félagsmáladeildar og deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningardeildar að taka saman minnisblað er varðar þau atriði sem fram koma í framlögðu bréfi. Minnisblaðið skal innifela stöðumat og tillögur að aðgerðum sem ráðast þarf í til innleiðingar laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna. Minnisblaðið skal leggja fyrir bæjarráð svo fljótt sem verða má en eigi síðar en um komandi mánaðarmót.

Félagsmálanefnd Fjallabyggðar - 133. fundur - 10.09.2021

Lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna taka gildi 1. janúar 2022. Í lögunum er ákvæði til bráðabirgða sem kveður á um að ráðherra ber ábyrgð á því að viðeigandi ráðstafanir séu gerðar til að undirbúa gildistöku laga þessara og styðja við innleiðingu þeirra. Lítið hefur bólað á aðgerðum stjórnvalda en undirbúningsvinna af hálfu sveitarfélagsins er hafin.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 711. fundur - 30.09.2021

Lagt fram minnisblað deildarstjóra félagsmáladeildar dags. 17.09.2021 vegna óskar um að ráða tímabundið í hlutastarf vegna innleiðingar laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og breytinga á barnaverndarlögum sem taka gildi um næstu áramót.
Óskað er eftir að mæta viðaukanum innan fjárhagsáætlunar með færslu á milli málaflokka innan félagsmáladeildar þannig:
Hækkun á málaflokki 02310, lykill 1110 kr. 990.000, og málaflokki 02310, lykill 1890 kr. 237.600.- Lækkun á málaflokki 02510, lykill 1110 kr. -990.000. og málaflokki 02510, lykill 1890 kr. -237.000.-
Samþykkt
Bæjarráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum ofangreinda beiðni um viðauka nr. 23/2021 sem ekki hreyfir handbært fé við fjárhagsáætlun 2021 og vísar til afgreiðslu og umfjöllunar bæjarstjórnar.

Félagsmálanefnd Fjallabyggðar - 134. fundur - 29.10.2021

Deildarstjóri gerir grein fyrir verkefninu og næstu skrefum framundan.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 717. fundur - 04.11.2021

Lagt er fram erindi Halldóru Drafnar Gunnarsdóttur f.h. Velferðarráðuneytisins dags. 25. október 2021. Í erindinu er þess farið á leit að sveitarfélagið tilnefni sérstakan fulltrúa innleiðingar vegna laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna nr. 86/2021.
Samþykkt
Bæjarráð samþykkir að fela Hirti Hjartarsyni, deildarstjóra félagsmáladeildar að vera tengiliður vegna innleiðingar ofangreindra laga, einnig samþykkir bæjarráð að fela Ríkeyju Sigurbjörnsdóttur deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála að vera varatengiliður vegna innleiðingarinnar.

Félagsmálanefnd Fjallabyggðar - 138. fundur - 09.06.2022

Deildarstjóri kynnti helstu áherslur varðandi innleiðingarferli laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna.

Félagsmálanefnd Fjallabyggðar - 140. fundur - 10.11.2022

Deildarstjóri og ráðgjafi félagsþjónustu gera grein fyrir framvindu verkefnisins.

Félagsmálanefnd Fjallabyggðar - 144. fundur - 03.03.2023

Staða og framvinda verkefnisins kynnt fyrir nefndinni. Helga Helgadóttir, ráðgjafi félagsþjónustunnar er innleiðingarstjóri verkefnisins í Fjallabyggð. Stofnað hefur verið innleiðingarteymi sem í situr deildarstjóri fræðslu-, frístunda- og menningarmála, ráðgjafi félagsþjónustu, fulltrúar leikskóla og grunnskóla. Skipaðir hafa verið tengiliðir á öllum þjónustustigum; heilsugæslu, leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og félagsþjónustu ásamt því sem skipaður hefur verið málstjóri. Upplýsingar um "Farsæld barna í Fjallabyggð" munu birtast á heimasíðu Fjallabyggðar og heimasíðum annarra þjónustuaðila innan skamms. Innleiðingarteymið mun funda með Barna- og fjölskyldustofu á næstu dögum. Staða verkefnisins í Fjallabyggð er heilt yfir í góðum farvegi.

Fræðslu- og frístundanefnd Fjallabyggðar - 122. fundur - 06.03.2023

Lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna tóku gildi 1. janúar 2022. Þeim er ætlað að stuðla að farsæld barna. Meginmarkmið laganna er að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana. Í Fjallabyggð er að störfum innleiðingarhópur sem heldur utan um innleiðingu í viðeigandi stofnunum.
Deildarstjóri fræðslu-, frístunda- og menningarmála fór yfir helstu þætti laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og upplýsti um stöðu innleiðingar í Fjallabyggð. Deildarstjóri benti m.a. á upplýsingatexta á vef Fjallabyggðar, Farsæld barna í Fjallabyggð. Fræðslu- og frístundanefnd lýsir ánægju sinni með þetta stóra framfaraskref til farsældar fyrir börn og unglinga og hlakkar til að fylgjast með þróun málsins í framtíðinni.