Fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins á Siglufirði í gær

Skemmtiferðaskipið MS Fram frá Hurtigruten í Noregi kom óvænt til Siglufjarðar í gær og er það fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins. Skipinu var ætlað að leggja að á Djúpavík en vegna veðurs þurfti skipið frá að hverfa og var ákveðið að koma þess í stað til Siglufjarðar. Bókunarfyrirvarinn var stuttur eða rétt rúmlega hálfur sólarhringur. 

Skipið lagið að Óskarsbryggju kl. 8:00 í gær morgun þann 13. maí og stoppaði til kl. 16:00. Um borð voru 115 farþegar og fóru þeir allir í leiðsögn og síldarsmakk á Síldarminjasafnið, sem féll mjög vel í kramið og gestirnir hæstánægðir.

Til gamans má geta að í fyrra komu skip Hurtigruten í þrígang með skömmum fyrirvara, af sömu ástæðu,  vegna veðurs.