Þór Vigfússon opnar sýningu í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði

Sunnudaginn 12. maí kl. 14.00 opnar Þór Vigfússon sýningu í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Sýningin stendur til 26. maí og er opin daglega frá kl. 14.00 - 17.00. Verið öll velkomin.

Á sýningunni Portrett sýnir Þór Vigfússon ný verk unnin fyrir Kompuna í Alþýðuhúsið á Siglufirði. Á sýningunni veltir Þór fyrir sér skilgreiningum hins tvívíða forms.

Ég hef verið að spá í formið og titla eða nöfn á listaverkum, flest mín verk eru nafnlaus en með nafni kemur oft merking sem hingað til hefur ekki hentað mínum verkum. Nú er ég að velta því fyrir mér að nota titla. Ég er svo sem ekki viss. Merkilegt við þessa vinnu, alltaf ertu á byrjunarreit, sömu spurningarnar aftur og aftur. Þegar verkið er svo komið fyrir framan þig, er þetta þá útkoman? Næsta verk tekur við - enn og aftur á upphafspunkt, útkoman eiginlega eins og síðast en hausinn enn og aftur að, hefur ekkert lært eða hvað? Segja má að myndlistamaðurinn Þór Vigfússon sverji sig í ætt við naumhyggjulistamenn þar sem verk hans einkennast af einföldum formum og hreinum litaflötum. Verk Þórs liggja á milli flatar og þrívíddar, með spegluninni sem finna má í glerverkum hans endurspeglar Þór bæði áhorfandann og rýmið svo úr verða mótandi áhrif á skynjun áhorfenda.

Þór Vigfússon er fæddur í Reykjavík árið 1954. Árið 1974 tók Þór þátt í sinni fyrstu sýningu og spannar sýningarferill hans nú fimm áratugi. Þór hefur sýnt víða bæði hér heima og erlendis á sínum ferli auk þess að vinna að myndlistarverkum í opinberar byggingar, nú síðast verkið Flækja fyrir nýtt skrifstofuhúsnæði Alþingis, Smiðju. Þór hefur komið að margvíslegu sýningarhaldi á sínum ferli, er einn af stofnendum Nýlistasafnsins og ARS LONGA samtímalistasafns á Djúpavogi þar sem hann einmitt býr og starfar.