Mótbyr í Ólafsvík – Meðbyr í Ólafsfirði
Örlagasaga Sr. Helga Árnasonar í Ólafsvík og Ólafsfirði. Atli Rúnar Halldórsson, blaðamaður og rithöfundur mun kynna bókina 5. desember kl. 17.00 Í Safnaðarheimili Ólafsfjarðarkirkju.
Helgi Árnason var áður prestur í Ólafsvík við miklar vinsældir sóknarbarna sinna en einkalífið var ítrekaður harmleikur. Hann missti alls fimm börn af sex sem hann eignaðist með tveimur eiginkonum, systrum. Sú fyrri andaðist þrítug að aldri og hann kvæntist þá mágkonu sinni, Maríu Torfadóttur, síðar prestsfrú í Ólafsfirði.
Við bættust átök við illskeyttan sýslumanninn í Stykkishólmi sem séra Helgi fékk dæmdan fyrir meiðyrði.
Prestshjónin voru sorgmædd, langþreytt og hreinlega buguð þegar Helga loksins tókst að fá annað brauð, embætti í Kvíabekkjarprestakalli. Hann var fremstur í flokki þeirra sem börðust fyrir því að Ólafsfjarðarkirkja yrði reist. Kirkjan er því öðrum þræði minnisvarði um þennan merka frumkvöðul í byggðarlaginu sem Helgi sannarlega var.
Í Ólafsfirði öðluðust prestshjónin nýtt líf og þar leið þeim afar vel. Ólafsfirðingar björguðu hreinlega sálarheill okkar, sagði presturinn sjálfur.
Allir velkomnir.