Fegrum Fjallabyggð

Fegrum Fjallabyggð er samráðsverkefni íbúa og stjórnsýslu um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri verkefna í nærumhverfi íbúa í Fjallabyggð. Verkefnið hefst í janúar 2023 og lýkur að hausti 2024. Markmiðið er að virkja almenning til þátttöku í lýðræðislegri umræðu og ákvarðanatöku.

Öll gögn um verkefnið eru aðgengileg á vef Fjallabyggðar, www.fjallabyggd.is, og allar nánari upplýsingar eru veittar á tæknideild Fjallabyggðar eða á netfanginu iris@fjallabyggd.is.

Fjármagn

Verkefnið er til tveggja ára og er gert ráð fyrir 20 milljónum í framkvæmdir á verkefnum. Fjármagnið er bundið við smærri framkvæmdir í nærumhverfi íbúa.

Tímasetningar

Verkefnið í heild er í fjórum fösum. Hugmyndasöfnun, yfirferð hugmynda, kosningar og svo framkvæmd. Áætlaðar tímasetningar eru eftirfarandi:

 • Hugmyndasöfnun er 11. janúar – 1. febrúar 2023
 • Hugmyndir metnar af tæknideild Fjallabyggðar sem leggur mat á kostnað við hönnun og framkvæmd. Ákveðum fjölda hugmynda stillt upp til kosninga.
 • Rafræn kosning um verkefni til framkvæmda mars 2023.
 • Verkefni sem verða kosin fara í framkvæmd frá júní 2023 – október 2024.

Hugmyndasöfnun 11. janúar til 1. febrúar 2023

Óskað er eftir hugmyndum að verkefnum sem kosið verður um í mars 2023. Hugmyndirnar geta verið nýframkvæmdir sem m.a. geta eflt hreyfi- og leikmöguleika og haft jákvæð áhrif á nærumhverfið m.a. til útivistar og samveru, bætta lýðheilsu og aðstöðu til leikja- og skemmtunar. 

Þegar hugmynd er sett inn á hugmyndavefinn þarf að skrá sig inn með netfangi eða Facebook aðgangi, gefa hugmynd nafn, útskýra hana með texta/myndbandi/hljóðupptöku/ljósmynd og gjarnan merkja staðsetningu hugmyndar á kort. 

Íbúar geta kynnt sér hugmyndir annarra á vefnum, rökrætt þær og gefið þeim vægi sitt. 

Mat á hugmyndum

Starfsmenn tæknideildar Fjallabyggðar, fara yfir innsendar hugmyndir út frá skilyrðum verkefnisins og í samráði við skipulags- og umhverfisnefnd verður lagður fram ákveðinn fjöldi hugmynda á kjörseðil sem íbúar kjósa um í mars. Horft verður til þess að þær hugmyndir sem fara á kjörseðil verði dreift jafnt um sveitarfélagið. Gera má ráð fyrir að um 20 hugmyndir fari í kosningu í vor. 

Verkefnin þurfa að uppfylla eftirfarandi skilyrði til að geta átt möguleika á að fara í kosningu:

 • Nýtast hverfi eða íbúum bæjarins í heild. 
 • Vera á opnu svæði í bæjarlandinu.
 • Kostnaður einstakra verkefna sé ekki lægri en 1 milljón og ekki hærri en 10 milljónir.
 • Vera framkvæmanlegar innan tímaramma verkefnisins - þ.e. fyrir árslok 2024.
 • Falla að skipulagi og yfirlýstri stefnumótun Fjallabyggðar.
 • Vera á verksviði og á fullu forræði Fjallabyggðar, hugmyndin getur ekki verið háð samráði eða samningaviðræðum við aðra aðila s.s. stofnanir eða fyrirtæki.
 • Vera í samræmi við lög og reglur.
 • Krefjast ekki verulegs rekstrarkostnaðar eins og starfsmannahalds eða vöktunar.

Ráðleggingar varðandi hugmyndir

Hugmyndir íbúa að verkefnum geta varðað leik- og afþreyingarsvæði íbúa, vistvænar samgöngur, bætta lýðheilsu eða umhverfið almennt. Mikilvægt er að hugmyndin sé skýr og lýsandi, þannig að aðrir eigi auðvelt með átta sig á því sem um er að ræða. Koma þarf fram um hvað verkefnið snýst og hvar nákvæm staðsetning er. Greinargóð lýsing auðveldar mat og því hvort hún nái athygli annarra íbúa ef hún kemst í kosningu. Starfsmenn Fjallabyggðar geta óskað eftir nánari skýringum um hverja hugmynd.

Rafræn kosning

Þegar búið er að vinna úr hugmyndunum og velja ákveðinn fjölda hugmynda og kostnaðarmeta fá íbúar í Fjallabyggð tækifæri til að kjósa um hugmyndirnar og úthluta allt að 20 milljónum króna í verkefni sem þeir vilja sjá framkvæmd í sveitarfélaginu næstu tvö árin. 

Í mars 2023 fer fram rafræn kosning. Valið fer fram á sérstöku vefsvæði þar sem notandi auðkennir sig með öruggum hætti, með Íslykli eða rafrænum skilríkjum, þar sem atkvæðið er dulkóðað. Aldrei er hægt að tengja atkvæðið við einstakling. Kosningin er fyrir íbúa Fjallabyggðar sem verða 15 ára á kosningaárinu og eldri með skráð lögheimili í Fjallabyggð þegar valið fer fram. 

Vakin er athygli á því að ekki er um að ræða íbúakosningu í skilningi 107. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. 

Framkvæmd verkefna

Undirbúningur framkvæmda fer af stað strax að loknum kosningum. Gera má ráð fyrir að þau verkefni sem þarfnast minni undirbúnings fari strax í framkvæmd. Stefnt er að því að stærri og flóknari verkefni sem kalla á hönnun og útboð verði lokið í síðasta lagi í október 2024. 

Upplýsingar um stöðu framkvæmda verða aðgengilegar á vef Fjallabyggðar, fjallabyggd.is, og verða uppfærðar reglulega.

Ef af einhverjum ástæðum einhver getur ekki sett fram hugmyndir á samráðsvef, á meðan á hugmyndasöfnun stendur yfir, er hægt að fá aðstoð á tæknideild Fjallabyggðar, Gránugötu 24, á staðnum eða í s. 464-9100 eða netfangið iris@fjallabyggd.is. 

Birt með fyrirvara um villur. 

Slóð á fjallabyggd.betraisland.is - Fegrum Fjallabyggð