Voigt Travel flýgur til Akureyrar

Mynd: Markaðsstofa Norðurlands
Mynd: Markaðsstofa Norðurlands

Hollenska ferðaskrifstofan Voigt Travel hefur nú hafið sölu á skipulögðum ferðum til Akureyrar með leiguflugi frá Hollandi. Ferðaskrifstofan áætlar að fljúga með ferðamenn yfir tvö tímabil á næsta ári, annars vegar yfir næsta sumar og hins vegar næsta vetur frá desember fram í mars.

Markaðsstofa Norðurlands og Flugklasinn Air 66N hafa leitt verkefnið og nú standa yfir viðræður við ferðaþjónustufyrirtæki á Norðurlandi um samstarf við ferðaskrifstofuna og þjónustu við farþega. Ljóst er að slíkar ferðir kalla á ýmis konar þjónustu, eins og komið hefur í ljós með ferðum bresku ferðaskrifstofunnar Super Break. Áhersla ferðaskrifstofunnar verður bæði á ferðalög þar sem ferðamenn keyra sjálfir á milli staða og hópaferðalög með fararstjóra. Sú fjölbreytni þýðir betri dreifingu þessara gesta um allt Norðurland, allt frá Hvammstanga til Langaness.

Voigt Travel er ferðaskrifstofa í Hollandi með 30 ára reynslu af ferðum fyrir Hollendinga á norðlægar slóðir og býður þegar upp á ferðir til sex áfangastaða í Skandinavíu. 

Til þess að komast í samband við Voigt Travel er best að senda Hjalta Páli Þórarinssyni, verkefnastjóra Flugklasans Air 66N hjá Markaðsstofu Norðurlands, tölvupóst og óska eftir upplýsingum um tengilið. Hjalti mun síðan sjá til þess að koma viðkomandi í samband við réttan aðila hjá Voigt. Netfangið hjá honum er hjalti@nordurland.is

Markaðsstofa Norðurlands stefnir einnig að því að halda kynningarfund með Voigt Travel og samstarfsfyrirtækjum Markaðsstofunnar, þar sem hægt verður að hitta fulltrúa Voigt Travel. Sá fundur hefur ekki verið skipulagður enn, en verður kynntur og auglýstur betur þegar líða fer á veturinn.

Hér má sjá fréttatilkynninguna sem Markaðsstofa Norðurlands sendi frá sér þann 16. nóvember sl. https://www.northiceland.is/is/markadsstofan/frettir-af-innra-starfi/frettir/category/1/bjoda-beint-flug-fra-hollandi-til-akureyrar