Vika símenntunar 22.-28. september

Af því tilefni munu símenntunarmiðstöðvar á svæðinu koma til Siglufjarðar og Ólafsfjarðar.  

Símey - símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar verður í Ólafsfirði, Tjarnarborg þriðjudaginn 23. sept. Boðið verður upp á frían fyrirlestur um listina að lifa kl. 20:00  (sjá auglýsingu). Að honum loknum verður Símey með kynningu á nýrri námskrá sem í boði verður fyrir Fjallabyggð haust 2008 og náms- og starfsráðgjafi verður á staðnum.

Farskólinn - miðstöð símenntunar á norðurlandi vestra verður á Siglufirði föstudaginn 26. sept. Skólinn verður með kynningu í anddyri Samkaups - Úrvals kl. 15:30 og milli 17:00-19:00 á Pizza ´67 (Torginu). Boðið verður upp á fríar pizzur.

Markmið Viku símenntunar er að auka símenntun í íslensku atvinnulífi og hvetja fólk til að leita sér þekkingar alla ævi. Í Viku símenntunar er lögð áhersla á að ná til þeirra sem hafa litla formlega menntun að baki; kynna námsframboð og þjónustu sem símenntunarmiðstöðvarnar veita.

Miðvikudaginn 24. september er símenntunardagur í fyrirtækjum og stofnunum á landsvísu. Fyrirtæki eru hvött til að tileinka þann dag fræðslumálum til dæmis með því að kynna starfsmönnum fræðslustefnu fyrirtækisins, bjóða upp á námskeið eða fá Símey / Farskólann í heimsókn með kynningu.

Karítas Skarphéðinsdóttir Neff

Fræðslu- og menningarfulltrúi