Bæjarbryggjan á Siglufirði formlega vígð

Við Bæjarbryggjuna á Siglufirði
Við Bæjarbryggjuna á Siglufirði

Nýr viðlegukanntur Bæjarbryggjunnar á Siglufirði verður formlega vígður föstudaginn 30. september nk.,  kl. 16:00. Mun Innanríkisráðherra, Ólöf Nordal, klippa á borða og opna mannvirkið formlega til notkunar.

Að vígslu lokinni mun Sveitarfélagið Fjallabyggð og Fiskmarkaður Siglufjarðar bjóða til móttöku í húsi Fiskmarkaðarins. Þar munu m.a. innanríkisráðherra Ólöf Nordal, bæjarstjóri Fjallabyggðar Gunnar Birgisson og fleiri halda ræður.

Boðið verður uppá veitingar og tónlist.

Framkvæmdir hófust í febrúar við fyllingu og niðurrekstur á stálþili, sem er 227 metra langt og gengu þær afar vel. Annar viðlegukannturinn er 155 metra langur og hinn er um 60 metrar. Þá var innsiglingin að Siglufjarðarhöfn og einnig hluti hafnarinnar dýpkuð niður í – 9,0 metra dýpi. Eftir er að steypa þekju á höfnina, en það verður framkvæmt næsta vor eftir að fyllingin hefur sigið.

Gamli viðlegukannturinn var orðinn sundurryðgaður og ónýtur og því var þessi framkvæmd löngu tímabær.

Nýja Bæjarbryggjan mun mæta þörfum útgerða í heimabyggð ásamt skipum annarra útgerða. Einnig er hægt að taka á móti stærri skemmtiferða- og flutningaskipum.

Heildarkostnaður við þessa miklu framkvæmd er ríflega 550 m.kr. Hafnarbótasjóður styrkir byggingarhluta verkefnisins um 75% og dýpkunarhluta um 60%. Þannig að hlutur Fjallabyggðar er um 150 m.kr. og Hafnarbótasjóðs um 400 m.kr.

Mjög hæfir verktakar völdust til verksins og stóðu sig afar vel en nú eru einungis ríflega 7 mánuðir liðnir síðan verkið hófst og er það mjög vel að verki staðið.

Allir bæjarbúar Fjallabyggðar og aðrir gestir eru hjartanlega velkomnir.