Viðburðir í Alþýðuhúsinu á Siglufirði 10. september

Alþýðuhúsið á Siglufirði
Alþýðuhúsið á Siglufirði

Sunnudaginn 10. september nk. verða tveir viðburðir í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.

Steingrímur Eyfjörð opnar sýningu í Kompunni kl. 14.00 og kl. 15.00 verður Margrét Elísabet Ólafsdóttir með erindi á “Sunnudagskaffi með skapandi fólki”.

 

 

 

RÚMFATALAGERINN – WhereThatPlaceIsSomehowGettingTheAmericanFeelingRight nefnist einkasýning Steingríms Eyfjörð í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Titill sýningarinnar er fenginn úr verkinu „Conversation with Brad and Asi“ frá árinu 2002 og var upprunalega hugmyndin að því verki að taka upp samtal á milli Steingríms Eyfjörð, ameríska kvikmyndagerðamannsins Bradley’s Gray og íslenska listamannsins Ásmunds Ásmundssonar, þar sem þeir ræddu um “síð-ameríkaníseringuna“ (e. post – Americanization) eins og hún birtist þeim í samtímanum á Íslandi.

RúmfatalagerinnSteingrímur Eyfjörð (f. 1954) er einn fremsti listamaður sinnar kynslóðar sem kom fram á áttunda áratugnum á Íslandi og hefur verið virkur þátttakandi í íslensku listalífi æ síðan. Steingrímur vinnur með ólíka listmiðla, t.a.m. ljósmyndun, málverk, teiknimyndasögur, skúlptúra, gjörninga, innsetningar og vídeóverk. Verk hans byggja gjarnan á hugmyndafræði sem vísa í þjóðsögur, Íslendingasögur, tískuiðnaðinn, trúarbrögð, dulspeki, menningarfræði o.fl. Árið 2006 hélt Listasafn Íslands yfirlitssýningu á verkum hans og árið 2007 var hann fulltrúi Íslands á tvíæringnum í Feneyjum. Steingrímur hefur hlotið margar viðurkenningar fyrir sína listsköpun í gegnum árin og má þar nefna menningarverðlaun DV árið 2002, íslensku sjónlistaverðlaunin árið 2008 og í ár fékk hann nafnbótina bæjarlistamaður Hafnarfjarðar.

Erindi Margrétar ber yfirskriftina; Stafræna byltingin – áform, örlög og eftirmálar.

Margrét Elísabet ÓlafsdóttirUpp úr aldamótunum 2000 komu fram tveir hópar listamanna á sviði myndlistar annars vegar og tónlistar hins vegar, sem báðir höfðu uppi áform um að efla veg stafrænnar listsköpunar á Íslandi. Fyrri hópurinn var samsettur af sundurlausum hópi lista- og fræðimanna, sem þekktust lauslega. Hinn hópurinn samanstóð af tónskáldum sem höfðu þekkst lengi eða kynnst á meðan þau voru við nám í Listaháskóla Íslands. Fyrri hópurinn sameinaðist um stofnun Lornu, félags áhugamanna um rafræna list árið 2002 sem hafði uppi áform um að koma á fót Media Labi fyrir listamenn í Reykjavík. Seinni hópurinn stofnaði S.l.á.t.u.r - Samtök listrænt ágengra tónskálda umhverfis Reykjavík árið 2005, sem hafði það markmið að bylta hljóðheimi íslenskrar samtímatónlistar með nýrri nótnaskrift. Aðferðir þessara tveggja hópa við að koma listrænni sýn sinni á framfæri var frá upphafi ólík, en hið sama má einnig segja um stöðu hópanna í íslensku menningarlífi. Með því að bera hópana saman og skoða afdrif einstaklinga innan þeirra má hugsanlega varpa ljósi á hvaða þættir geta haft áhrif á hvort listamönnum tekst að koma byltingarkenndum hugmyndum á framfæri og festa þær í sessi.

Margrét Elísabet Ólafsdóttir er lektor við Háskólanna á Akureyri. Hún starfar einnig sem sýningarstjóri, gagnrýnandi og ritgerðarhöfundur.