Viðurkenning fyrir hönnun.

Reynir Vilhjálmsson landslagsarkitekt og teiknistofa hans, Landslag ehf., fengu um helgina sérstaka viðurkenningu (special mention) fyrir hönnun fyrsta áfanga snjóflóðavarna á Siglufirði í evrópskri samkeppni á vegum arkitektasamtaka og arkitektaskóla á Spáni. Alls voru tæplega 500 verkefni send til keppninnar og 14 þeirra kepptu til úrslita í Barcelona. Höfundar verkanna kynntu þau fyrir 350 manna ráðstefnu og alþjóðlegri dómnefnd sem ákvað að tvö verk skyldu deila með sér sigurlaunum; Paolo Burgi frá Sviss fyrir gönguleiðir og útsýnisstaði við Locarno, og Catherine Mosbach frá Frakklandi fyrir grasagarð í Bordeaux. Siglufjarðarverkefnið fékk svo sérstaka viðurkenningu í þessari þekktu og virtu keppni landslagsarkitekta. Reynir Vilhjálmsson og Þráinn Hauksson, framkvæmdastjóri Landslags ehf., veittu viðurkenningunni viðtöku. Þeir segjast tæplega búnir að átta sig á því enn að verkefnið þeirra hafi komist í fremstu röð í keppninni. Árangurinn sé framar björtustu vonum og mikill heiður fyrir Landslag ehf. og íslenskan landslagsarkitektúr yfirleitt. Gefin verður út vönduð bók um keppnina og fjallað þar sérstaklega um verkefnin þrjú sem fengu verðlaun og viðurkenningu. Ýmis fagrit landslagsarkitekta í Evrópu hafa þegar óskað eftir að kynna Landslag ehf. og snjóflóðavarnirnar á Siglufirði. Það sagði ennfremur sína sögu að þrír af sex þátttakendum í hringborðsumræðum í lok evrópsku landslagsarkitektasamkomunnar í Barcelona viku sérstaklega að Siglufjarðar-verkefninu í máli sínu.Verðlaunin kallast Rosa Barba-European Landscape Prize og eru nú veitt í þriðja sinn. Snjóflóðavarnirnar sem hér um ræðir eru tveir leiðigarðar, Stóri-Boli og Litli-Boli, sem reistir voru neðan Jörundarskálar og Strengsgilja á Siglufirði á árunum 1998 og 1999. Nú er unnið að framkvæmd annars áfanga varnarvirkja á Siglufirði, þvergarða ofan byggðar.