Verkalýðsfélagið Vaka ályktar vegna Héðinsfjarðarganga

Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundi stjórnar Verkalýðsfélagsins Vöku á Siglufirðisem haldinn var fimmtudaginn 3. júlí kl. 18:00 á skrifstofu félagsins að Suðurgötu 10 á Siglufirði:Stjórn Verkalýðsfélagsins Vöku fordæmir þau vinnubrögð stjórnvalda að slá framkvæmdum við Héðinsfjarðargöng á frest, eftir að hafa marglofað í kosningabaráttunni á liðnum vetri, Siglfirðingum og öðrum íbúum á utanverðum Tröllaskaga að staðið yrði við fullyrðingar um samgöngubætur með Héðinsfjarðargöngum.Jafnvel mestu efasemdarmenn voru farnir að trúa því að af framkvæmdum yrði og létu þar með draga sig á asnaeyrunum, enda vart hægt að láta sér detta í hug að til væru stjórnvöld sem væru svo ómerkileg að ganga um héruð og ljúga framan í opið ginið á kjósendum um jafn mikilvægt málefni og þetta. Einnig hafa þessi sömu stjórnvöld dregið á tálar, fjölmarga verktaka og alla þá aðila sem komið hafa að undirbúningi málsins og bundið við það miklar væntingar.Það hefur ekkert breyst hvað varðar útlit fyrir þenslu í hagkerfinu, frá því að ákvörðun um virkjun og álver á Austurlandi var tekin og því er það ómerkilegur fyrirsláttur að ætla að afsaka þessa ákvörðun með ofþenslu. Orð samgönguráðherra á þá leið að bregðast þurfi við breytingum í hagkerfinu frá mánuði til mánaðar eru hreint og beint sorgleg, en lýsa stefnuleysi stjórnvalds, sem grípur bara næsta hálmstrá til að réttlæta vondar og lúalegar ákvarðanir. Stjórn Vöku telur að ráðherrar samgöngu, byggða og fjármála séu ekki störfum sínum vaxnir, ef þeir telja réttlætanlegt að koma svona fram við kjósendur.Íbúar við utanverðan Eyjafjörð hafa bundið miklar vonir við bætt búsetuskilyrði, með betri samgöngum og aukinni samvinnu, sem Héðinsfjarðargöng eru forsenda fyrir. Siglfirðingar hafa talið að með því að verið er að verja milljörðum króna til að verja byggðina fyrir snjóflóðum með byggingu varnargarða, hlytu stjórnvöld að vera að senda þau skilaboð að þau teldu byggð í Siglufirði skipta máli.Þeir stjórnmálamenn sem nú hafa orðið berir að ósannindum, geta ekki ætlast til þess að við trúum því að Héðinsfjarðargöng verði boðin út árið 2006 og að í raun sé ekki verið að slá þessa framkvæmd af.Heiðarleg stjórnvöld sem bera virðingu fyrir sjálfum sér og kjósendum sínum haga sér ekki með þessum hætti. Heiðarleg stjórnvöld setja fram stefnu í atvinnu- efnahags- og byggðamálum sem þolir sveiflur frá einum mánuði til annars og þolir dagsbirtu, bæði fyrir og eftir kosningar.