Úthlutun styrkja Menningarráðs Eyþings 2013 í Fjallabyggð

Styrkþegar 2013
Styrkþegar 2013
Þann 7. febrúar fór fram úthlutun menningarstyrkja Menningarráðs Eyþings. Úthlutunin fór fram að þessu sinni í Menningarhúsinu Tjarnarborg, Ólafsfirði. Alls hlutu 57 verkefni styrk og þar af fóru 9 styrkir til Fjallabyggðar sem er afar ánægjulegt.  Það er vonandi að þessir styrkir verði styrkþegum hvatning og þeir efli menningarstarf í Fjallabyggð.

Ungmennafélagið Glói fékk styrk til að halda Ljóðahátíðina Glóð á haustdögum. Markmið hátíðarinnar er að kynna ljóðlistina fyrir íbúum og gestum  Siglufjarðar, gefa þeim tækifæri til að hlýða á fremstu skáld landsins flytja ljóð sín. Auk þess að skapa heimamönnum tækifæri til að koma sínu efni á framfæri. Við styrknum tók Þórarinn Hannesson.

Ljóðasetur Íslands er hugsað sem lifandi staður þar sem gestir geta litið í bók, hlýtt á upplestra eða tónlist. Ljóðasetrið fékk styrk í verkefnið „Lifandi viðburðir á Ljóðasetri Íslands“.  Yfir sumartímann verða lifandi viðburðir daglega þar sem fram koma ljóðskáld, tónlistarfólk og áhugafólk um ljóðlistina.  Við styrknum tók Þórarinn Hannesson.

Guðrún Ingimundardóttir fékk styrk til að halda landsmót kvæðamanna. Landsmótið er liður í að efla íslenska þjóðtónlist og mynda samstöðu með hópum þjóðtónlistarfólks. Haldnar verða vinnustofur og námskeið. Einnig verður skipulagt samstarf kvæðamanna á landsvísu við að kynna og miðla þjóðtónlist. 

 Listhúsið í Fjallabyggð fékk styrk í verkefnið Norðurljósasögur. Með verkefninu er verið að vekja athygli á Norðurljósunum og möguleikum til Norðurljósaskoðunar á svæðinu.  Leitað verður til listamanna í Fjallabyggð og víðar á Norðausturlandi um verk á sýningar sem settar verða upp í Fjallabyggð og síðar víðar á Norðurlandi og í Asíu.  Við styrknum tók Alice Liu.

Jassklúbbur Ólafsfjarðar fékk styrk í verkefnið Norðan blús 2013 sem er hluti af Blúshátíðinni í Ólafsfirði. Á blúshátíðinni verða haldnir útitónleikar við menningarhúsið Tjarnarborg þar sem ungu fólki sem tekið hefur þátt í námskeiðum blúshátíðarinnar undanfarin ár tækifæri til að koma fram.  Við styrknum tók Gísli Rúnar Gylfason formaður Jassklúbbsins.

Fagur fiskur í sjó er samstarfsverkefni nokkra aðila á Ólafsfirði með það að mkarmiði að efla listir, menningu og tengsl listamanna og listnema á Ólafsfirði.  Gera á listaverk sem tengir fortíðina og núið við framtíðina. Unnið verður út frá gömlum myndum af svæðinu og málað listaverk á framhlið fjögurra fyrirtækja sem snúa að höfninni. Hvert hús verður með sitt litaþema sem byggist á árstíðunum. Umhverfið mun dragast inn í verkið og skapa þannig einstakt myndverk.  Við styrknum tók Anna María Guðlaugsdóttir.

Verkefnið „REITIR“  er alþjóðlegt samvinnuverkefni sem fram fer á Siglufirði. Forsvarsmaður verkefnisins er Arnar Ómarsson og er hann í samstarfi við Alþýðuhúsið og ýmsa hópa bæði erlenda og íslenska. Þátttakendur í verkefninu vinna með bæjaryfirvöldum og íbúum á Siglufirði að tímabundnum skapandi útfærslum á sameiginlegum svæðum innan bæjarins.  Markmið Reita er að móta varanlegan grundvöll fyrir skapandi fólk til að nota þekkingu sína og reynslu í beinu samstarfi við bæjarbúa. Lögð er áhersla á fjölbreytni innan hópsins og samanstendur hann af atvinnumönnum í listum og faglærðum hönnuðum og hins vegar sérfræðingum í félagsvísindum og raungreinum.  Við styrknum tók Arnar Ómarsson.

Á síðasta ári opnaði menningarmiðstöð í gamla Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Aðalheiður Eysteinsdóttir fékk styrk í verkefnið

Menningardagskrá í Alþýðuhúsinu á Siglufirði þar verða m.a. haldnir fjölbreyttir menningarviðburðir á árinu meðal annars listasmiðjur fyrir börn og aðstandendur, ljóðadagskrá, tónleikar og dansviðburðir.  Aðalheiður fær einnig styrk í lokasýningar verkefnisins “

Réttardagur 50 sýninga röð “en verkefnið hefur staðið yfir síðan 23. Júní 2008.   Sýningarnar fjalla allar á einn eða annan hátt um íslensku sauðkindina og þá menningu sem um hana skapast. Markmiðið er að byggja brú milli listsköpunar og raunveruleikans með samstarfi við aðra listamenn, börn, fræðimenn og  allt skapandi fólk.  Nú hafa verið settar upp 41. sýning og þær níu sem vantar uppá verða settar upp í sumar.  Þar af verða sjö síðustu sýningarnar opnaðar á afmælisdegi listamannsins 22. júní nk. í Gilinu á Akureyri.  Fjöldi listamanna tekur þátt á opnunardegi með ýmsum uppákomum.  Aðalheiður Eysteinsdóttir tók við styrknum.

Leiklistarhátíðin Þjóðleikur á Norðurlandi er samstarfsverkefni fjölmargra aðila á Norðurlandi.  Leiklistarhátíðin er ungmenni á aldrinum 14-20 ára. Haldin verða námskeið og í apríl verður lokahátíð Þjóðleiks haldin á Akureyri   Þjóðleikur fær styrk í lokahátíð verkefnisins. Við styrknum tók Gísli Rúnar Gylfason verkefnastjóri Þjóðleiks.

Þjóðlagahátíðin á Siglufirði verður haldin í 14 sinn í sumar.  Í ár verður lögð áhersla á leikhústengda þjóðlagatónlist. Á hátíðinni koma fram íslenskir og erlendir tónlistarmenn.  Karítas Skarphéðinsdóttir tók við styrknum fyrir hönd hátíðarinnar.