Uppgjör vegna breytinga á A-deild Brúar lífeyrissjóðs

Með setningu laga nr. 127/2016 var lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins breytt og hafði sú lagabreyting áhrif á A-deild Brúar lífeyrissjóðs frá 1. júní 2017 sem kallaði á framlög launagreiðenda til A-deildar sjóðsins.

Nú liggur fyrir árshlutareikningur fyrir tímabilið 1. janúar - 31. maí 2017, tryggingafræðileg athugun fyrir sama tímabil og uppgjör launagreiðenda á framlögum í jafnvægissjóð, lífeyrisaukasjóð og varúðarsjóð en forsendur uppgjörsins eru að:

Jafnvægissjóður er til að mæta halla á áfallinni lífeyrisskuldbindingu A-deildar sjóðsins þann 31. maí 2017. Framlag launagreiðenda í jafnvægissjóð er skipt hlutfallslega á launagreiðendur eftir iðgjaldaskilum þeirra frá stofnun sjóðsins til 31. maí 2017. Framlag Fjallabyggðar í jafnvægissjóðinn verður kr. 71.053.504 en heildarframlög til jafnvægissjóðs eru kr. 9.958.717.284.

Lífeyrisaukasjóðnum er ætlað að mæta breytingu á réttindaöflun sjóðfélaga í A-deild til framtíðar. Framlag launagreiðenda í lífeyrisaukasjóð er skipt hlutfallslega á launagreiðendur eftir iðgjaldaskilum frá 1. janúar 2017- 31. maí 2017 en þau iðgjöld taka mest mið af framtíðarskipan sjóðsins. Greiðsla Fjallabyggðar í lífeyrisaukasjóðinn verður kr. 192.123.927 en heildarframlög til Lífeyrisaukasjóðs eru kr. 27.260.749.984.

Varúðarsjóðnum er ætlað til að standa til vara að baki lífeyrisaukasjóðnum. Hlutur Fjallabyggðar í varúðarsjóðnum verður kr. 20.669.268., en heildarframlög til Varúðarsjóðs eru kr. 3.015.817.552. Ef tryggingafræðileg staða lífeyrisaukasjóðsins samkvæmt árlegu mati verður neikvæð um 10% eða meira í fimm ár eða hafi hún haldist neikvæð samfellt a.m.k. 5% í meira en tíu ár skal leggja höfuðstól varúðarsjóðsins að hluta eða í heild við eignir lífeyrisaukasjóðsins. Framlag launagreiðenda í varúðarsjóði er skipt hlutfallslega á launagreiðendur eftir iðgjaldaskilum frá 1. janúar 2017- 31. maí 2017. 
Rökin fyrir þessari skiptingu er að hefði ekki komið til lagabreytinga í desember 2016 hefði mótframlag launagreiðenda í A-deild verið hækkað í allt að 21% til að koma tryggingafræðilegri stöðu sjóðsins í jafnvægi. Því hefðu launagreiðendur sem borguðu iðgjald til sjóðsins á árinu 2017 borið hækkunina alfarið.

Með breytingu á þessum lögum þarf Fjallabyggð að greiða samtals 283.846.699. kr. til lífeyrissjóðsins Brúar og þarf uppgjöri að vera lokið 15. febrúar nk.

Á fundi bæjarráðs þann 16. janúar sl. var samþykkt að leggja til við bæjarstjórn að tekið verði lán að upphæð kr. 284 millj. 
Í fjárhagsáætlun 2018 var samþykkt að greiða niður lán á árinu um 33 millj.kr., endanleg fjárhæð lántökunnar er því í skoðun og verður ákvörðun tekin á næsta fundi bæjarstjórnar.