Umsóknir um styrki frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða tók til starfa 8. ágúst 2011 en sjóðurinn er í vörslu Ferðamálastofu sem annast rekstur hans. Markmið og hlutverk sjóðsins er að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða í opinberri eigu eða umsjón um land allt. 
Þá skal með fjármagni úr sjóðnum leitast við að tryggja öryggi ferðamanna og vernda náttúru landsins. Einnig er sjóðnum ætlað að fjölga viðkomustöðum ferðafólks til að draga úr álagi á fjölsótta ferðamannastaði. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða auglýsir eftir umsóknum um styrki, 2-3 sinnum á ári til uppbyggingar ferðamannastaða, í samræmi við markmið sjóðsins.

Nú er opið fyrir umsóknir um styrki frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til uppbyggingar á ferðamananstöðum árið 2015. Umsóknarfrestur er til kl. 16:00 14. október 2014.
Verkefni verða að uppfylla amk. eitt af eftirfarandi skilyrðum:
- Verkefnið er til uppbyggingar, viðhalds og verndunar mannvirkja og náttúru á ferðamannastöðum í eigu opinberra aðila eða á náttúruverndarsvæðum.
- Verkefnið er til framkvæmda sem varða öryggi ferðamanna og verndun náttúru á ferðamannastöðum í eigu opinberra aðila jafnt sem einkaaðila.
- Verkefnið er til undirbúnings- og hönnunarvinnu sem er nauðsynleg vegna framkvæmda á ferðamannastöðum eða á náttúruverndarsvæðum.

Áherslur og ábendingar til umsækjenda:
Framkvæmdasjóðurinn leggur sérstaka áherslu á verkefni þar sem horft er til heildarmyndar ferðamannastaða og ferðamannaleiða.
Framlög til einkaaðila eru háð því skilyrði að um sé að ræða ferðamannastaði sem eru opnir almenningi.
Að jafnaði getur styrkur ekki numið hærri upphæð en 50% af kostnaði.
Við yfirferð umsókna er tekið mið af gæðum og trúverðugleika umsókna, mikilvægi verkefnis m.t.t. markmiða Framkvæmdasjóðsins og Ferðamálaáætlunar 2011-2020, sjálfbærnisjónarmiða, nýnæmis o.fl.

Frekari upplýsingar er hægt að nálgast á heimasíðu Ferðamálastofu.