Tillaga starfshóps um samþættingu á skóla- og frístundastarfi

Bæjarstjórn Fjallabyggðar samþykkti á fundi sínum í dag þann 18. maí 2017 eftirfarandi tillögu starfsfólks um samþættingu á skóla- og frístundastarfi.

Samkvæmt samþykkt bæjarstjórnar frá 21. apríl 2017 verður 1.-5. bekk grunnskólans kennt í húsnæði skólans á Siglufirði og 6.-10. bekk í húsnæði skólans í Ólafsfirði.

Starfshópurinn leggur til að kennsla barna í 1.-5. bekk hefjist kl. 8:30. Lýkur þá kennslu 1.-4. bekkjar kl. 13:30 og kennslu 5. bekkjar kl. 14:30.

Starfshópurinn leggur til að skólabíll fari frá Ólafsfirði kl. 8:05 og að boðið verði upp á gæslu fyrir nemendur 1.-5. bekkjar í skólahúsnæði á Siglufirði frá kl. 8:00. Þar verði boðið upp á hafragraut fyrir nemendur 1.-5. bekkjar, foreldrum að kostnaðarlausu, áður en kennsla hefst. Foreldrar skrá börn sín í morgunmat á Mentor.

Að loknum skóladegi 1.-4. bekkjar taki við skipulagt íþrótta- og tómstundastarf sem kallað verður Frístund og varir frá kl. 13:30 til 14:30.

Í upphafi skólaárs og við áramót gefst nemendum 1.-4. bekkjar kostur á að skrá sig í Frístund og velja á milli mismunandi valkosta í íþrótta- og tómstundastarfi.

Markmið með Frístund

 • Að efla og styðja við félagsleg tengsl og þroska nemenda.
 • Að jafna möguleika nemenda til að stunda tómstundastarf.
 • Að allir nemendur hafi aðgang að félagsskap að loknum skóladegi.
 • Að gefa nemendum kost á að sækja íþróttaæfingar og tónlistarskóla í beinu framhaldi af skóladegi.
 • Að a.m.k. 90% nemenda nýti sér frístund að loknum skóladegi.

Leiðir að markmiðum

 • Sett verður upp skipulag að Frístund í beinu framhaldi af skóladegi. Frá kl. 13:30- 14:30 eiga allir nemendur í 1.-4. bekk kost á að velja sér viðfangsefni sem tengist tómstundastarfi, tónlistarnámi eða íþróttaæfingum.
 • Tómstundastarf (annað en tónlistarnám og íþróttaæfingar) er nemendum að kostnaðarlausu.
 • Nemendur sem velja tónlistarnám á frístundartíma þurfa að vera skráðir nemendur í Tónlistarskólanum á Tröllaskaga
 • Nemendur sem velja íþróttaæfingar á frístundartíma þurfa að vera skráðir iðkendur hjá viðkomandi félagi.
 • Að lokinni Frístund fá nemendur ávaxtabita áður en haldið er heim eða farið í Lengda viðveru. Ávaxtabiti verður einnig í boði fyrir nemendur 5. bekkjar. Ávaxtabiti verður í boði án endurgjalds.

Tónlistarnám

 • Einkakennsla fer fram í húsnæði Tónlistarskólans við Aðalgötu, Siglufirði. Kennarar tónlistarskólans sækja börn og fylgja til baka í skólann við Norðurgötu óski foreldrar þess.
 • Samhæfingar og samspil fer fram í húsnæði tónlistarskólans við Aðalgötu, Siglufirði. Kennarar tónlistarskólans sækja börn og fylgja til baka í skólann við Norðurgötu.
 • Kóræfingar fara fram í húsnæði Grunnskólans við Norðurgötu.

Íþróttaæfingar

 • Íþróttaæfingar fara bæði fram í íþróttasal grunnskólans við Norðurgötu og í Íþróttamiðstöðinni.
 • Iðkendum verður keyrt til og frá íþróttamiðstöð.
 • Íþróttafélög sem bjóða upp á íþróttaæfingar í Frístund eru Knattspyrnufélag Fjallabyggðar, Blakfélag Fjallabyggðar, Tennis- og babmintonfélag Siglufjarðar og Ungmennafélagið Glói.

Lengd viðvera

 • Lengd viðvera tekur við að lokinni Frístund kl. 14:30- 16:00 í skólahúsnæði grunnskólans á Siglufirði fyrir þá sem það kjósa. Greitt er fyrir Lengda viðveru samkvæmt gjaldskrá. Í Lengdri viðveru verður m.a. boðið upp á frjálsan leik, heimanámsaðstoð og síðdegishressingu.
 • Skólabíll fer frá skólahúsinu við Norðurgötu strax að lokinni Lengdri viðveru kl. 15:45. Með því móti er skóladagur barna sem nýta sér Lengda viðveru jafn langur.

Skólabíll

 • Skólabíll fer frá skólahúsinu við Norðurgötu að loknum skóladegi kl. 13:35 fyrir þá nemendur 1.-4. bekkjar sem ekki hafa hug á að nýta sér Frístund.
 • Skólabíll fer frá skólahúsinu við Norðurgötu strax að lokinni Frístund kl. 14:35 fyrir þá nemendur 1.-4. bekkjar sem ekki nýta sér Lengda viðveru og nemendur 5. bekkjar sem þá hafa lokið skóladegi.
 • Skólabíll fer frá skólahúsinu við Norðurgötu með börn úr Lengdri viðveru kl. 15:45.
 • Rútuliði verður í öllum ferðum skólabíls.

Mat á Frístund

 • Að minnsta kosti 1x í mánuði er haldinn fundur með starfsfólki Frístundar þar sem farið er yfir starfið í Frístund og fundnar leiðir til að laga það sem úrskeiðis fer.
 • Meta skal árangur og ánægju með Frístund árlega meðal foreldra. Í því mati er horft til markmiða með Frístund.

Ábyrgð og utanumhald á Frístund

 • Deildarstjóri fræðslu-, frístunda- og menningarmála ber ábyrgð á starfi Frístundar og heldur utan um það í samvinnu við Grunnskólann í Fjallabyggð, Tónlistarskólann á Tröllaskaga og þau íþróttafélög sem taka þátt í starfinu.
 • Deildarstjóri fræðslu-, frístunda- og menningarmála boðar til samráðsfundar vegna Frístundar og sér til þess að starfið sé metið.
 • Ritari Grunnskóla Fjallabyggðar tekur á móti skráningum í Frístund og útbýr þátttökulista.

Hugmynd að skipulagi Frístundar

 Hugmynd að skipulagi Frístundar

Á fundi bæjarstjórnar Fjallabyggðar þann 21. apríl sl. var starfshópur um samþættingu á skóla- og frístundastarfi skipaður. Eftirtaldir aðilar voru skipaðir í hópinn:

Helga Helgadóttir, forseti bæjarstjórnar
Steinunn María Sveinsdóttir, formaður bæjarráðs
S. Guðrún Hauksdóttir, formaður fræðslu- og frístundanefndar
Jónína Magnúsdóttir, skólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar
Ríkey Sigurbjörnsdóttir, aðstoðarskólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar
Magnús G. Ólafsson, skólastjóri Tónlistarskólans á Tröllaskaga

Starfshópurinn fundaði fimm sinnum. Á einn af þeim fundum mættu 7 fulltrúar íþróttafélaga í Fjallabyggð og ræddu um mögulega aðkomu íþróttafélaganna að skipulagningu frístundastarfs strax að loknu skólastarfi. Í framhaldinu lýstu 4 íþróttafélög yfir vilja til þess að taka þátt í starfinu, þ.e. Knattspyrnufélag Fjallabyggðar, Blakfélag Fjallabyggðar, Ungmennafélagið Glói og Tennis-og badmintonfélag Siglufjarðar.

Meirihluti bæjarstjórnar Fjallabyggðar þakkar fulltrúum grunnskóla, tónlistarskóla og íþróttafélaga fyrir þeirra framlag til samþættingar á skóla- og frístundastarfi fyrir börn í
1.-4. bekk. Meirihluti bæjarstjórnar telur að hér hafi stórt og mikilvægt framfaraskref verið stigið í þágu frístundastarfs barna í sveitarfélaginu og vonast til þess að jákvæð viðbrögð fulltrúa íþróttafélaga í Fjallabyggð leiði til áframhaldandi samþættingar á skóla- og frístundastarfi fyrir börn og unglinga.

Helga Helgadóttir, forseti bæjarstjórnar
Steinunn María Sveinsdóttir, formaður bæjarráðs
S. Guðrún Hauksdóttir, formaður fræðslunefndar
Ríkharður Hólm Sigurðsson, bæjarfulltrúi
Ásgeir Logi Ásgeirsson, varabæjarfulltrúi
Nanna Árnadóttir, varabæjarfulltrúi
Valur Þór Hilmarsson, bæjarfulltrúi