Þjóðlagahátíðin á Siglufirði

Dagana 5. - 9. júlí n.k. fer fram fimm daga tónlistarhátíð fyrir alla fjölskylduna á Siglufirði.

Þjóðlagahátíðin hefur að leiðarljósi að kynna þjóðlagaarf ólíkra þjóða og þjóðarbrota. Á hátíðinni verða 19 tónleikar haldnir víðs vegar um Siglufjörð. Auk tónleika er boðið upp á námskeið, bæði í tónlist og handverki.
Þjóðlagaakademían er svo háskólanámskeið opið öllum almenningi. Þar verða kennd íslensk þjóðlög, rímnalög og tvísöngslög. Einnig verða þar kenndir þjóðdansar, að leika á langspil og íslenska fiðlu. Að ganga á milli tónleikastaða í kyrrð á sumarnóttu er upplifun sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.

Hina mjög svo fjölbreyttu og skemmtilegu dagskrá Þjóðlagahátíðar má nálgast á heimasíðu hátíðarinnar.

MARKMIÐ ÞJÓÐLAGAHÁTÍÐAR Á SIGLUFIRÐI

  • að hvetja til varðveislu íslenskra þjóðlaga
  • að stuðla að nýsköpun íslenskrar tónlistar
  • að stefna saman listamönnum úr ólíkum áttum
  • að varpa ljósi á menningararf Íslendinga og annarra þjóða
  • að höfða til allrar fjölskyldunnar, barna, unglinga og fullorðinna
  • að virkja heimamenn til samvinnu við innlenda og erlenda listamenn
  • að halda nafni þjóðlagasafnarans sr. Bjarna Þorsteinssonar á lofti
  • að verða einn hornsteina í starfsemi þjóðlagaseturs á Siglufirði

Á meðal gesta á hátíðinni verður trommu- og danssveitin Pan African Dance Heritage frá Ghana. Sveitin verður með tónleika og heldur námskeið á hátíðinni. Miðasala er þegar hafin á Tix.is og á heimsíðu hátíðarinnar.

Námskeiðin á þjóðlagahátíð eru bæði á sviði tónlistar og forns handverks. Sum eru haldin ár hvert, önnur sjaldnar. Börnum er einnig boðið upp á sérstök námskeið og sumarið 2004 var haldið í fyrsta skipti sérstakt námskeið fyrir unglinga. Enda þótt hátíðin leggi áherslu á að rækta íslenskan þjóðlagaarf hafa fjölmörg tónverk verið frumflutt á hátíðinni.

Listrænn stjórnandi hátíðarinnar frá upphafi hefur verið Gunnsteinn Ólafsson, tónlistarmaður.

Allar nánari upplýsingar og dagskrá Þjóðlagahátíðarinnar í ár er að finna á heimasíðunni Siglófestival.