Þjóðarsáttmáli um læsi

Frá athöfninni í gær
Frá athöfninni í gær

Haustið 2015 mun mennta- og menningarmálaráðuneyti í samvinnu við sveitarfélög og skóla vinna að Þjóðarsáttmála um læsi með það að markmiði að öll börn geti við lok grunnskóla lesið sér til gagns. Verkefnið er hluti af aðgerðaáætlun í kjölfar Hvítbókar um umbætur í menntun. Framlag ráðuneytisins verður í formi ráðgjafar, stuðnings, lesskimunar og aukins samstarfs við foreldra.

Í gær var undirritaður samningur á milli Fjallabyggðar og mennta- og menningarmálaráðherra þar sem aðilar staðfestu sameiginlegan skilning á því að læsi sé nauðsynlegt til virkrar þátttöku í samfélaginu þannig að hver og einn geti nýtt hæfileika sína sjálfum sér og samfélaginu öllu til velferðar. Aðilar munu vinna að því eftir fremsta megni að a.m.k. 90% nemenda í sveitarfélaginu geti lesið sér til gagns árið 2018. Þegar meðaltal síðustu fimm ára í lesskilningshluta samræmdra prófa í 10. bekk í íslensku í Fjallabyggð eru gerðar sambærilegar við niðurstöður PISA frá 2012 ná 64% nemenda þessu markmiði.

Menntamálastofnun hefur verið falin framkvæmd á þessu verkefni og verður framlag hennar til þessa samnings eftirfarandi:
- veita sveitarfélaginu stuðning og ráðgjöf við að ná markmiðum sínum.
- lætur skólum í té viðeigandi skimunarpróf
- aðstoða kennara í sveitarfélaginu við að greina niðurstöður mælinga og ákveða aðgerðir í kjölfarið
- reka virka upplýsingagátt þar sem þekking um læsi, kennslu og þróunarstarf verður miðlað til skólasamfélagsins.
- efna til árlegrar námstefnu um læsi

Með samningnum skuldbindur Fjallabyggð sig til að:
- Setja sér markvissa læsisstefnu í samræmi við ákvæði í aðalnámskrá leik- og grunnskóla.
- Ákveða lágmarksviðmið um lestrarhraða, lesskilning, orðaforða og ritfærni í samræmi við aðalnámskrá.
- Mæla reglubundið leshraða, lesskilning, hljóðkerfisvitund og málþroska og nýtir niðurstöður þeirra og samræmdra könnunarprófa á markvissan hátt.
- Beita snemmtækri íhlutun í leik- og grunnskólum og bregst jafnóðum við vísbendingum um lestrarvanda.
- Nýta markvisst sérfræðiþjónustu sína til ráðgjafar, greiningar og eftirfylgni.
- Veita nemendum af erlendum uppruna sérstakan stuðning með það fyrir augum að þeir nái virku tvítyngi og sömu viðmiðum í læsi og aðrir nemendur.
- Leggja áherslu á samvinnu við foreldra og foreldrafélög til að ná markmiðum samningsins.

Allar nánari upplýsingar um þjóðarátakið er hægt að nálgast á heimasíðu Mennta- og menningarmálaráðneytisins - GOTT AÐ LESA

Illugi Gunnarsson
Mennta- og menningarmálaráðherra, Illugi Gunnarsson, flutti ræðu. 

Steinunn María Sveinsdóttir
Steinunn María Sveinsdóttir formaður bæjarráðs flutti ávarp f.h. Fjallabyggðar

Bjarni Th. Bjarnason
Bjarni Th. Bjarnason sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar flutti ávarp en Dalvíkingar skrifuðu undir samskonar samningi við ráðherra.

Sólrún Ingvarsdóttir
Sólrún Ingvarsdóttir, nemandi við Tónskóla Fjallabyggðar, lék á píanó við athöfnina í gær.

Frá undirritun þjóðarsáttmála um læsi

Samningurinn undirritaður.  Gunnar I. Birgisson bæjarstjóri Fjallabyggðar, Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra og Hugborg Inga Harðardóttir f.h. Heimili og skóla.

Íslandslíkan
Að lokinni undirritun samnings rituðu samningsaðilar nöfn sín á litla miða sem síðan voru settir í sérstakt Íslandslíkan. 

Þjóðarsáttmáli um læsi
Við athöfnina í gær voru fulltrúar nemenda, kennara, foreldra og skólastjórnenda.

Ingó Veðurguð

Veðurguðinn Ingó var með í för og endaði hann athöfnina í gær með því að flytja lagið ÞAÐ ER GOTT AÐ LESA.

Hlusta má á lagið hér