Sýslumaðurinn á Siglufirði annast málefni sanngirnisbóta

Dómsmála- og mannréttindaráðherra hefur falið sýslumanninum á Siglufirði að annast þau verkefni sem sýslumanni eru falin samkvæmt lögum um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007. Þá mun dómsmála- og mannréttindaráðuneytið auglýsa á næstu dögum laust til umsóknar starf tengiliðar sem m.a. hefur það hlutverk að koma á framfæri upplýsingum til þeirra sem kunna að eiga bótarétt samkvæmt lögunum.

Verkefni sýslumanns

Í lögum nr. 26/2007 segir að þegar nefnd hafi lokið skýrslu um könnun sína á starfsemi heimilis eða stofnunar skuli ráðherra fela sýslumanni að gefa út innköllun. Verkefni sýslumanns felst m.a. í því að skora á þá sem telja sig eiga rétt til bóta samkvæmt lögum um sanngirnisbætur að lýsa kröfum sínum með auglýsingu (innköllun) í Lögbirtingablaði og dagblaði, sem birta skal í tvígang. Þeir sem telja sig eiga rétt til bóta skulu lýsa kröfum sínum innan þriggja mánaða frá síðari birtingu í Lögbirtingablaði á sérstöku eyðublaði sem sýslumaður útbýr. Hann skal jafnframt fara yfir þær kröfur sem berast og taka afstöðu til þeirra. Að því búnu skal hann gera viðkomandi einstaklingi skriflegt og bindandi sáttaboð að höfðu samráði við ráðherra.

Þá hefur dómsmála- og mannréttindaráðherra falið sýslumanninum á Siglufirði að gera tillögu til ráðuneytis að nánari reglum um viðmið við ákvörðun fjárhæða, meðferð bótakrafna, aðgang sýslumanns eða úrskurðarnefndar að gögnum hjá sveitarfélögum, stofnunum þeirra og ríkisstofnunum, fyrirkomulag greiðslu bóta, viðmiðunarfjárhæð vegna lögmannskostnaðar og önnur atriði sem varða framkvæmd laganna. Er miðað við að tillögur sýslumanns liggi fyrir svo fljótt sem unnt er og eigi síðar en 25. júlí nk.

Embætti sýslumannsins á Siglufirði annast alla umsýslu og afgreiðslu mála hjá bótanefnd samkvæmt lögum nr. 69/1995  um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota.  Er starfsmaður bótanefndar staðsettur hjá embættinu. Hjá embættinu er því bæði til staðar þekking og reynsla við meðferð bótakrafna sem gerir embættið vel í stakk búið til þess að takast á hendur þessi verkefni.

Starf tengiliðar

Tengiliðurinn skal leiðbeina þeim sem til hans leita um framsetningu bótakrafna eftir að sýslumaður hefur kallað eftir þeim. Hann skal einnig aðstoða fyrrverandi vistmenn sem eiga um sárt að binda í kjölfar vistunar við að sækja sér þjónustu sem ríki og sveitarfélög bjóða upp á, svo sem varðandi endurhæfingu og menntun. Um fullt starf að ræða og ráðgert er að starfsstöð tengiliðar verði hjá opinberri stofnun á grundvelli þjónustusamnings.  

Gert er ráð fyrir því að búið verði að ráða í starf tengiliðar fyrir ágústlok og stefnt er að því að innköllun krafna hefjist í september.