Svarfdælskur vísnasöngvari með sænsku þjóðlagabandi í Ólafsfjarðarkirkju

Dana Ýr Antonsdóttir er vísnasöngkona af svarfdælsku bergi brotin. Dana er þessa dagana á tónleikaferð hér á landi ásamt þrem Svíum í hljómsveitinni Finlir og halda þau tónleika í Ólafsfjarðarkirkju kl 17:00 á sunnudaginn, 2. mars.   Dana Ýr er 19 ára og stundar nú tónlistarnám í lýðháskóla í Kungälv í nágrenni Gautaborgar í Svíþjóð. Félagar hennar í Finlir eru nemendur við sama skóla og er tónleikaferð fjórmenninganna hluti af námi þeirra við skólann. Aðrir hópar á vegum skólans eru nú á ferðinni vítt og breitt um Norðurlöndin og halda þar tónleika með öllu tilheyrandi.
Dana syngur og leikur á gítar, píanó og harmónikku en hljóðfæri ganga að sögn nokkuð títt á milli hljóðfæraleikara i þessari sveit. Á efnisskránni eru sænsk þjóðlög í bland við frumsamið efni en Dana á víst nóg af slíku í pokahorninu.