Styrkveitingar Fjallabyggðar fyrir árið 2022

Árlega veitir Fjallabyggð félagasamtökum, stofnunum og einstaklingum styrki til starfs og vegna veittrar þjónustu sem fellur að hlutverki sveitarfélagsins eða telst á annan hátt í samræmi við stefnumörkun, áherslur, forgangsröðun og fjárhagsáætlun bæjarstjórnar.

Auglýst er eftir styrkumsóknum í tengslum við fjárhagsáætlunargerð að hausti og er styrkjum, að aflokinni umræðu í nefndum og ráðum, úthlutað í upphafi næst komandi árs.

Úthlutaðir fjárstyrkir fyrir árið 2022 nema alls kr. 52.037.200.- Þar af fara 2.700.000 kr. til einstakra menningartengdra verkefna, 2.950.000 kr. til reksturs safna og setra og styrkir til hátíðahalda kr. 3.050.000.- Úthlutaðir styrkir til fræðslumála nema kr. 235.000.- og til ýmissa verkefna kr. 45.852.200.- Að auki eru styrkir veittir í formi afnota af húsnæði og/eða muna í eigu sveitarfélagsins.

Áfram verður veittur styrkur til bæjarlistamanns og er upphæð hans óbreytt frá fyrra ári kr. 300.000.-

Að auki gerir Fjallabyggð þjónustusamninga við íþróttafélög um rekstur á íþróttasvæðum í eigu sveitarfélagsins og nema þeir samningar samtals kr. 14.300.000.-                                                  

Fjallabyggð er aðili að þríhliða samningi við Leyningsás ses. og Valló ehf. vegna réttinda og skyldna sveitarfélagsins skv. 4. gr. samþykkta Leynisáss ses., dags.20.5.2012 en þar segir að Fjallabyggð styrki rekstur skíðasvæðisins í Skarðsdal eins og verið hafði fyrir stofnun Leyningsáss ses. og mætir með því skyldum sveitarfélagsins gagnvart íbúunum. Fjárupphæð á árinu 2022 er áætluð 29.600.000 kr.                         

Sjö umsóknum var hafnað.

Styrkveitingar Fjallabyggðar 2022, heildarlisti (pdf)