Styrkur frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða

Frá Héðinsfirði
Frá Héðinsfirði

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hefur staðfest tillögu stjórnar Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða um fyrstu úthlutun úr sjóðnum fyrir árið 2015. Að þessu sinni fengu 50 verkefni styrk fyrir 175,7 milljónir króna, til hönnunar og framkvæmda á ferðamannastöðum.

Fjallabyggð hlýtur 2.000.000 kr.styrk til að setja upp gönguleiðaskilti við upphaf og enda gönguleiða í Fjallabyggð. Markmið styrkveitingar er að auka öryggi ferðamanna og upplýsingagjöf til þeirra.

Sótt um fyrir 831 milljón
Alls bárust alls 103 umsóknir frá opinberum- og einkaaðilum sem hafa umsjón með ferðamannastöðum víðsvegar um landið. Heildarupphæð styrksumsókna var rúm 831 milljón króna en heildarkostnaður við verkefnin er áætlaður um 2 milljarðar króna.

Verulegur árangur náðst
Framkvæmdasjóður ferðamannastaða er nú á sínu fjórða starfsári og hefur frá upphafi úthlutað rúmlega 340 styrkjum að upphæð tæplega 1,5 milljarðar króna. Fullyrða má að verulegur árangur hafi þegar náðst af starfi sjóðsins. Víða um land má benda á spennandi verkefni sem orðið hafa að veruleika fyrir tilstuðlan þess fjármagns sem sjóðurinn hefur úthlutað, þótt vissulega sé enn víða þörf á úrbótum.

Lista yfir úthlutaða styrki má sjá hér á heimasíðu Ferðamálastofu.