Styrkir til þróunarverkefna í ferðaþjónustu

Iðnaðarráðherra hefur ákveðið að ráðstafa 100 milljónum króna af fé Byggðaáætlunar 2007 – 2009 til þriggja þróunarverkefna í ferðaþjónustu. Í öllum tilfellum verður auglýst eftir hópum fyrirtækja og einstaklinga í ferðaþjónustu sem vilja taka þátt í þróunarverkefnum á skilgreindum svæðum. Verkefnin snúa að þremur sviðum; í fyrsta lagi þróun í menningartengdri ferðaþjónustu; í öðru lagi auknum gæðum og vöruþróun í ferðaþjónustu og í þriðja lagi að matföngum úr héraði og áframhaldandi þróun viðfangsefnisins “Beint frá býli”.
Ferðamálastofa mun hafa umsjón með þróunarverkefnunum í samvinnu við IMPRU á Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Framkvæmd og útfærsla verður í höndum framangreindra stofnana en af hálfu ráðuneytisins hefur verið lögð áhersla á eftirtalin atriði

Þróun í menningartengdri ferðaþjónustu.

Markmið þessa verkefnis er að skilgreina sóknarfæri ákveðinna landssvæða og styðja þau í stefnumótun í menningartengdri ferðaþjónustu. Um verður að ræða greiningarvinnu með sérfræðingum á sviði menningar, lista, viðburða og markaðsmála á sérkennum og tækifærum viðkomandi svæðis, auk aðstoðar við vöru- og þjónustuþróun.

Aukin gæði í ferðaþjónustu.

Markmiðið á þessu sviði er að auka þekkingu á þjónustuþróun og bæta gæði þjónustu og vöru sem leitt geti til aukinnar arðsemi. Stefnt er að því að samræmd gæðaflokkun og merki verði innleidd í ferðaþjónustu. Um verður að tefla bæði faglega og fjárhagslega aðstoð til þess að innleiða þjónustuþróun og gæðakerfi.

Matur úr héraði.

Markmiðið með “Mat úr héraði” er að efla sérkenni íslenskrar ferðaþjónustu með auknum tengslum við hefðbundna matargerð. Byggt verður á verkefninu "Beint frá býli", sem stuðlaði að framleiðslu matvæla á sveitabýlum og milliliðalausri sölu þeirra til neytenda. Að verkefninu hafa m.a. staðið Háskólinn á Hólum, Lifandi landbúnaður, Félag ferðaþjónustubænda, Landbúnaðarháskóli Íslands, Bændasamtök Íslands og Impra á Nýsköpunarstöð Íslands.

Næstu skref eru að mynda samstarfshóp væntanlegra framleiðenda, samtaka í ferðaþjónustu, og fulltrúa úr stoðkerfi atvinnu- og iðnþróunar til að vinna að því að þroska enn frekar hugmyndir um framleiðslu og sölu beint frá býli. Verkefninu er ætlað að ná yfir þriggja ára tímabil 2008, 2009 og 2010.