Starfsemi NEON

Mynd: Frá Öskudeginum 2016
Mynd: Frá Öskudeginum 2016

Starfsemi félagsmiðstöðvarinnar NEON fór af stað í byrjun september. Líkt og undanfarin ár verður starfið bæði á Siglufirði og í Ólafsfirði. Vegna starfsemi KF í húsinu í Ólafsfirði og eins viðhaldsframkvæmda sem farið var í mun starfið í Ólafsfirði ekki hefjast fyrr en í næstu viku. Skipulag starfsins er með þeim hætti að á mánudögum verður starfið í Ólafsfirði og á föstudögum á Siglufirði. Á miðvikudögum verður starfið hins vegar til skiptist í Ólafsfirði og á Siglufirði.

Starf félagsmiðstöðvarinnar er fyrir ungmenni í 8. - 10. bekk grunnskólans og er opnunartími milli kl. 20:00 - 22:00 mánudaga, miðvikudaga og föstudaga.

Starfsemi Neon tekur mið af æskulýðslögum nr. 70 frá 2007 en tilgangur þeirra er að styðja börn og ungmenni til þátttöku í æskulýðsstarfi. Með æskulýðsstarfi er átt við skipulagða félags- og tómstundastarfsemi þar sem börn og ungmenni starfa saman í frístundum sínum að hugsjónum, markmiðum og áhugamálum sem þau sjálf meta að verðleikum. Í skipulögðu æskulýðsstarfi skal hafa í huga félags-, forvarna-, uppeldis- og menntunarlegt gildi þess sem miðar að því að auka mannkosti og lýðræðisvitund þátttakenda. Í öllu starfi með börnum og ungmennum skal velferð þeirra höfð að leiðarljósi og þau hvött til frumkvæðis og virkrar þátttöku.

Neon vinnur að uppbyggilegu uppeldis-, fræðslu- forvarnar- og frístundastarfi og í nánu sambandi við alla þá aðila er koma að málefnum barna og unglinga með það að markmiði að sameiginlega náist sem bestur árangur. 

Neon vinnur markvisst með unglingalýðræði. Markmiðið er að þjálfa unglinga í að taka sjálfstæðar ákvarðanir byggðar á þeirra eigin skoðunum og eigin forsendum. Dagskrá NEON er því byggð upp eftir óskum og/eða tillögum ungmennanna. Nemendaráð grunnskólans er jafnframt NEON-ráð og er búið að skipa í ráðið. Nú er búið að skipuleggja dagskrá október-mánaðar og er hægt að kynna sér hana hér í litlu fréttabréfi sem sett hefur verið saman, foreldrum og öðrum áhugasömum, til upplýsinga um starfið.