Spjallborð um viðburði í Fjallabyggð

Sett hefur verið upp spjallsvæði á vefnum fyrir umræður um hátíðir og viðburði í Fjallabyggð. Þeir sem skrá sig sem notendur geta tekið þátt í þeim umræðum sem búið er að stofna, eða hafið umræður um nýtt umræðuefni að vild, að því gefnu að það hafi skírskotun til meginefnis spjallborðsins.

Þann 24. September síðastliðinn var haldinn súpufundur um árlega menningarviðburði og hátíðir sem haldnar eru á Siglufirði. Á fundinum var rætt um skipulag og framkvæmd viðburða, fjármögnun og möguleika á meira samstarfi og aukinni þátttöku íbúa í undirbúningi þeirra. Framsögumenn kynntu þá viðburði sem þeir standa að baki og að því loknu ræddu fundarmenn um viðkomandi viðburði, framkvæmd þeirra, skipulag, fjármögnun og fleira. Að fundi loknum voru fundarmenn sammála um að koma þyrfti á einhverskonar vettvangi fyrir áframhaldandi umræður. Spjallborðið er tilraun til að skapa slíkan vettvang. 

Spjallborðið er að finna á slóðinni http://hatidir.fjallabyggd.is. Íbúar og aðrir áhugasamir eru hvattir til að taka þátt í umræðunni og koma skoðunum sínum á framfæri við skipuleggjendur hátíðanna og aðra hagsmunaaðila á spjallborðinu. Þar sem um tilraun er að ræða er viðmót spjallborðsins enn sem komið er á ensku, en umræðurnar fara að sjálfsögðu fram á íslensku. Vonandi lætur fólk það ekki aftra sér frá því að láta ljós sitt skína.

Tekið skal fram að spjallborðið er ekki á vegum Fjallabyggðar heldur er hér um grasrótarverkefni að ræða.