Spennandi tækifæri fyrir ungt fólk 18-28 ára

Í sumar gefst ungum Íslendingum á aldrinum 18-28 ára tækifæri á fjögurra vikna menningar- og ævintýraferð um slóðir íslensku landnemanna í Vesturheimi. Snorri West verkefnið hefur verið starfandi í Manitobafylki í Kanada frá árinu 2001 en gefst þátttendum nú einnig tækifæri til að ferðast um Íslendingaslóðir í Minnesota og Norður-Dakóta í Bandaríkjunum. Verkefnið er skipulagt af Þjóðræknisfélagi Íslendinga í Vesturheimi, Íslendingadeginum í Gimli, Snorrasjóði og Íslendingafélögunum í fyrrnefndum ríkjum.

Flogið verður til Minneapolis 9. júlí þar sem að fulltrúar Íslendingafélags­ins þar í borg taka á móti ungmennunum. Að nokkrum dögum liðnum verður keyrt til Norður-Dakóta og ferðast um Íslendingabyggðir þar og kynnst sögu og menningu afkomenda landnemanna. Síðari hluti ferðarinnar fer fram í Manitobafylki í Kanada en þar eru fjölmennustu byggðir Vestur-Íslendinga. Þátttakendur munu búa hjá fjölskyldum af íslenskum ættum. Ferðin endar á Íslendingadeginum í Gimli.

Það er samdóma álit þeirra ungmenna sem tekið hafa þátt í Snorra West að upplifunin sé ógleymanleg og að sterk vináttubönd hafi myndast við þær fjölskyldur þar sem þátttakendur hafa dvalist hjá. Komið er heim að morgni 9. ágúst. Þátttökukostnaður er 2.200 kanadadollarar og er þá allt innifalið, þ.e. flug, ferðir, gisting og matur víðast hvar. Verkefnið er styrkt af Icelandic Festival of Manitoba, Canada Iceland Foundation og Guttormsson Family Foundation.

Umsóknarfrestur er til 15. mars n.k. og er hægt að nálgast umsóknareyðublöð á vefnum www.snorri.is þar sem finna má frekari upplýsingar. Einnig er hægt að hafa samband við Ástu Sól Kristjánsdóttur verkefnisstjóra Snorraverkefna á netfangiðastasol@snorri.is og/eða Söruh Isliefson verkefnisstjóra vestra á netfangið snorriwestna@yahoo.com