Snjóflóðavarnargörðum og tjörnum gefin nöfn

Frá görðunum
Frá görðunum

Þann 7. júlí sl. voru snjóflóðavarnagarðarnir  fyrir ofan Siglufjörð vígðir með viðhöfn að viðstöddu fjölmenni. Við þetta tækifæri voru görðunum gefin nöfn sem dómnefnd valdi úr  hópi níu tillagna sem bárust í nafnasamkeppni. Tillögurnar sem urðu fyrir valinu komu frá Örnefnafélaginu Snóki.

Nyrsta leiðigarðinum var gefið nafnið „Kálfur“, sem þótti falla vel að nöfnum eldri leiðigarða sem kallast Stóri-boli og Litli-boli. Þvergarðarnir fimm hlutu nöfn sem öll enda á „rípill“, sem samkvæmt rökstuðningi með tillögunum merkir „garður“. Nokkur fordæmi er að finna fyrir örnefnum með þessari endingu á görðum eða hryggjum í landslagi og má þar nefna Rípil í Héðinsfirði og Sauðakotsrípil og Hólsrípil á Ufsaströnd í Dalvíkurbyggð, sem eru jökulurðir frá lokum ísaldar sem báðar eru á náttúruminjaskrá. Fyrri hlutar nafna garðanna eru dregnir af nöfnum jarða eða öðrum örnefnum í grennd við garðana. Nöfn þvergarðana, talið frá suðri eru: Hlíðarrípill, Hafnarrípill, Skriðurípill, Skálarrípill og Bakkarípill.

Við sama tækifæri voru tveimur tjörnum við garðana gefin nöfn sem einnig voru valin úr tillögum í nafnasamkeppninni. Tjörnin við aðkomuna að bænum úr norðri fékk nafnið Bakkatjörn að tillögu Steingríms Kristinssonar og sú við suðurenda garðanna heitir nú Bolatjörn að tillögu Sveins Þorsteinssonar.

Fjallabyggð þakkar þeim sem sendu inn tillögur í nafnasamkeppnina og dómnefnd fyrir vel unnin störf.

Hér má sjá yfirlitsmynd af görðunum með nýju nöfnunum.