Slökkviliðsmenn á námskeiði

Sex slökkviliðsmenn úr Slökkviliði Fjallabyggðar sóttu námskeið í slökkvistöfum sem haldið var á vegum Brunamálastofnunar á Siglufirði um helgina. Á námskeiðinu voru, auk heimamanna, slökkviliðsmenn frá Dalvík, Skagafirði og Blönduósi. Námskeiðið var liður í grunnmenntun slökkviliðsmanna og farið var yfir helstu þætti reykköfunar, skipulag á brunastað, reykræstingu, vatnsöflun, slökkviefni og notkun slökkvitækja. Verklegar æfingar í reykköfun fóru fram að Hóli, en æfingar í notkun slökkvitækja í fjörunni framan við Slökkvistöð Siglufjarðar og vöktu mikla athygli vegfarenda. Á myndinni má sjá einn þátttakenda á námskeiðinu slökkva olíueld með duftslökkvitæki, undir handleiðslu kennara.