Skólastarf hefst – ný skólarúta

Á morgun föstudaginn 23. ágúst hefst skólaakstur á nýrri og glæsilegri rútu Suðurleiða ehf. Suðurleiðir ehf. festu kaup á rútunni erlendis frá eftir að gengið var til samninga við félagið í sumar um skóla- og frístundaakstur til næstu þriggja ára. Mjög erfitt er að fá svo stóra rútu með 3ja punkta sætisbeltum svo brugðið var á það ráð að panta sætisbelti frá umboðinu og verða þau sett í rútuna um leið og þau koma til landsins. Er vonast til að það verði innan skamms tíma. Fyrst um sinn er því óhjákvæmilegt að slá af kröfum um þriggja punkta sætisbelti. Þetta þykir sveitarfélaginu og Suðurleiðum ehf. afar miður en annað er ekki í stöðunni.

Suðurleiðir ehf. hefur flýtt allri vinnslu á málinu eins og hægt var en tíminn var naumur þar sem gengið var til samninga við Suðurleiðir seint í júlí eftir að fallið var frá því að taka tilboði lægstbjóðanda.

Fjallabyggð vonast eftir skilningi foreldra og annarra sem nýta skólarútu á meðan verið er að koma þriggja punkta beltunum fyrir í rútunni.