Segja sig frá frekari vinnu við Síldarævintýrið

Á fundi markaðs- og menningarnefndar þann 8. október var lögð fram skýrsla og reikningar fyrir Síldarævintýrið 2015. Í skýrslunni kemur fram að hátíðarhöldin hafi tekist vel og er áætlað að um 3.000 gestir hafi verið á hátíðinni. Þrátt fyrir góða og fjölbreytta dagskrá er ljóst að veðurspá vegur þyngra en gæði dagskrár þegar landsmenn velja sér áfangastað þessa vinsælu helgi segir í skýrslunni. Fjármál félagsins, sem heldur utan um hátíðina, er á núlli og greiddi framkvæmdastjóri hátíðarinnar síðasta reikninginn úr eigin vasa þar sem styrkveitingar ársins dugðu ekki fyrir framkvæmd hátíðarinnar. Því er ljóst að þeir aðilar sem komu að undirbúningi og framkvæmd hátíðarinnar gerðu það í sjálfboðavinnu og hafa gert meira og minna þau sex ár sem þau hafa komið að hátíðinni. Í lok skýrslunnar segir nefndin sig frá störfum við hátíðina. Ljóst er að fá þarf nýtt fólk til starfa fyrir félagið um Síldarævintýrið eða breyta fyrirkomulaginu ef samfélagið vill, á annað borð, að hátíðin verði starfrækt áfram.

Markaðs- og menningarnefnd bókaði í gær þakklæti til framkvæmdanefndarinnar fyrir óeigingjarnt starf við undirbúning og framkvæmd hátíðarinnar síðast liðin ár en jafnframt óskar hún eftir að fulltrúar hennar mæti á næsta fund til að ræða framtíð Síldarævintýrisins.

Skýrslu framkvæmdanefndarinnar má nálgast hér.