Samgöngubætur og byggðaþróun 2009 - Könnun í Fjallabyggð

Rannsóknin Samgöngubætur og byggðaþróun: Félagsleg, efnahagsleg og menningarleg áhrif Héðinsfjarðarganga á mannlíf á norðanverðum Tröllaskaga er unnin af hópi kennara og nemenda við Háskólann á Akureyri með tilstyrk Rannsóknasjóðs Vegagerðarinnar.
Meginmarkmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á þær samfélagsbreytingar sem vænta má í Fjallabyggð í kjölfar opnunar Héðinsfjarðarganganna. Vonir standa til að niðurstöður rannsóknarinnar stuðli að styrkingu samfélaganna í Ólafsfirði og á Siglufirði og uppbyggingu hins sameinaða sveitarfélags Fjallabyggðar. Jafnframt geta niðurstöðurnar orðið að miklu gagni við undirbúning sambærilegra framkvæmda annars staðar á landinu. 

Á næstu dögum og vikum verða allir íbúar í Fjallabyggð 18 ára og eldri beðnir að taka þátt í spurningakönnun sem ætlað er að meta viðhorf, lífshætti og aðstæður í samfélaginu í heild. Samskonar spurningalisti verður lagður fyrir alla íbúa í Fjallabyggð að þremur árum liðnum.  

Spurningalistarnir eru nafnlausir og svör verða aldrei rakin til einstaklinga. Listunum verður safnað saman að útfyllingu lokinni og þeir innsiglaðir í trúnaðarumslög. Lesið verður úr svörum með vélrænum hætti og spurningalistum verður eytt að úrvinnslu lokinni. 

Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar verða kynntar á opnum kynningarfundum í Ólafsfirði og á Siglufirði í ársbyrjun 2010. Þóroddur Bjarnason prófessor við Háskólann á Akureyri er stjórnandi rannsóknarinnar og ber ábyrgð á framkvæmd hennar. Hann veitir allar frekari upplýsingar í síma 661 6099 eða með tölvupósti thorodd@unak.is.