Sameining þjónustumiðstöðva í Fjallabyggð

Að undanförnu hefur borið nokkuð á fréttaflutningi af óánægju starfsmanna þjónustumiðstöðvar Fjallabyggðar á Siglufirði með fyrirhugaðar skipulagsbreytingar og fækkun starfsmanna.

Af þessu tilefni vill undirritaður koma eftirfarandi á framfæri.

Það hefur lengi legið fyrir að til greina kæmi að sameina þjónustumiðstöðvar Fjallabyggðar í Ólafsfirði og á Siglufirði. Nokkur munur er á starfsemi og þjónustu þessara tveggja sjálfstæðu rekstrareininga og því lá fyrir að samræmingar væri þörf.

Í febrúar 2009 fékk Fjallabyggð ráðgjafafyrirtækið Stjórnsýsluráðgjöf ehf. til þess að taka út starfsemi þjónustumiðstöðvanna og gera tillögur að framtíðarfyrirkomulagi starfseminnar. Yfirlýst markmið með úttektinni var að finna leiðir til að hagræða í rekstri og tryggja að því fjármagni sem varið er til rekstrarins nýtist sem best. Sérstök áhersla var lögð á möguleika á hagræðingu í kjölfar sameiningar Siglufjarðarkaupstaðar og Ólafsfjarðarbæjar og með tilkomu Héðinsfjarðarganga. Athuga átti hvort hagræði geti hlotist af sameiningu stofnana eða af auknu samstarfi um mönnun og samnýtingu aðstöðu og búnaðar. Í úttektinni leitaði ráðgjafi m.a. til verkstjóra áhaldahúsa á Siglufirði og í Ólafsfirði.

Skýrsla Stjórnsýsluráðgjafar ehf. var tekin til umfjöllunar í Skipulags- og umhverfisnefnd sem aftur gerði tillögur til bæjarstjórnar um sameiningu þjónustu¬mið¬stöð¬vanna og framtíðarsýn fyrir þjónustumiðstöðvarnar. Í tillögunum nefndarinnar var megináhersla á það hvaða hlutverkum miðstöðvarnar ættu að sinna, en ekki lagt mat á áhrif þeirra á fjölda stöðugilda.

Bæjarstjórn fjallaði síðan um tillögurnar á vinnufundum, þar sem vöknuðu ýmsar spurningar um áhrif breytinganna á fjölda stöðugilda, kostnað og fleira sem skoða þurfti nánar. Starfsmönnum sveitarfélagsins var því falið afla ýmissa gagna úr bókhaldi og verkbókhaldi og leita svara við þeim spurningum sem upp höfðu komið. Á grundvelli þessara upplýsinga og skýrslu Stjórnsýsluráðgjafar ehf. mótaði bæjarstjórn hugmyndir sínar um framtíð þjónustumiðstöðvanna og samþykkti í janúar að fela stjórnendum sveitarfélagsins að kynna þær fyrir starfsmönnum. Það var gert á fundi með starfsmönnum og athugasemdum starfsmanna var komið á framfæri við bæjarstjórn í kjölfarið.

Ákvörðunin er tekin að teknu tilliti til sjónarmiða starfsmanna sem komið hafa fram í viðtölum ráðgjafa og samtölum stjórnenda við verkstjóra, sem og athugasemdum starfsmanna á fundi þar sem tillögurnar voru kynntar. Til grundvallar ákvörðuninni liggur jafnframt nokkurra ára samanburður á starfsemi þjónustumiðstöðvanna og ólíku fyrirkomulagi þeirra. Það er því að vel athuguðu máli að bæjarstjórn tekur einróma ákvörðun um sameiningu þjónustumiðstöðva og fækkun starfsmanna.

Þegar stofnanir eru sameinaðar er eðlilegt að horft sé til þess hvernig þær eru reknar. Hlutverk þjónustumiðstöðvarinnar í Ólafsfirði þótti betur samrýmast áherslum bæjarstjórnar. Þar hefur áherslan lengi verið á kjarnaverkefnin, þ.e. rekstur veitna, snjómokstur, umsjón opinna svæða, viðhald fasteigna og viðhald gatnakerfisins. Það var því ákveðið að samræma í átt að þessu fyrirkomulagi. Ýmis rök eru fyrir breytingunum. Sum þeirra verkefna sem þjónustumiðstöðin á Siglufirði hefur haft með höndum hafa þegar verið boðin út án þess að störfum hafi fækkað tilsvarandi, önnur munu hverfa á næstunni. Skoðun á verkbókhaldi leiddi í ljós að sum verkefnin eru umfangsmeiri en bæjarstjórn þykir æskilegt. Sum núverandi verkefna þóttu ekki samrýmast hlutverki sveitarfélaga og sum jafnvel brjóta í bága við samkeppnislög svo eitthvað sé nefnt.

Hlutverk sveitarfélaga hafa þróast á þann veg að verkefnum er í meira mæli sinnt af verktökum. Það reynist oft ódýrara og býður upp á meiri sveigjanleika í rekstrinum. Það eru helst kjarnaverkefni sveitarfélaga sem borgar sig að sveitarfélagið sinni sjálft. Ákvörðun bæjarstjórnar um sameiningu og endurskipulagningu þjónustumiðstöðva endurspeglar einmitt þetta.

Stjórnendur sveitarfélagsins sem að þessari ákvörðun standa hafa fullan skilning á því að það er sárt að missa vinnuna og það er ekki með léttum hug að ákvarðanir sem þessar eru teknar. Starfsmönnum sveitarfélagsins og bæjarfulltrúum er hinsvegar falið að taka ákvarðanir um rekstur sveitarfélagsins, jafnt þær þungu sem þær sem léttvægari eru, með langtímahagsmuni sveitarfélagsins að leiðarljósi. Það tel ég að hafi verið gert í þessu máli.

Þórir Kr. Þórisson
Bæjarstjóri.