Síldarminjasafnið kynnt erlendis

Nýlega tók Chris Bogan, starfsmaður Síldarminjasafnsins, þátt í alþjóðlegri safnaráðstefnu í Dubrovnik í Króatíu. Ráðstefnan nefnist ‘The Best In Heritage’ og til hennar er aðeins boðið virtum ,,verðlaunasöfnum” til að kynna starfsemi sína og einnig til að leggja grunn að alþjóðlegum tengslum og samstarfi. Í lok ráðstefnunnar velja ráðstefnugestir besta fyrirlesturinn sem hlýtur sérstök heiðursverðlaun. Nokkuð á annað hundrað manns frá 30 löndum sátu ráðstefnuna að þessu sinni og fylgdust í þrjá daga með 22 kynningum á hinum margvíslegustu söfnum, allt frá Síldarminjasafninu til The Museum of Civilization í Quebec, Kanada (þar sem starfsmenn eru fleiri en íbúar Siglufjarðar!) eða hins nýja og glæsilega safns, The Imperial War Museum í Manchester. Sem ,,besta kynningin” var valið Rotorua safnið í Nýja Sjálandi. Athyglin á Siglufirði.Í erindi sínu fjallaði Chris um uppbyggingu Síldarminjasafnsins og þýðingu þess að fá Íslensku safnverðlaunin árið 2000 og tilnefningu til Evrópsku safnverðlaunanna 2004. Að sögn Chris vakti kynning hans mikla athygli og ekki síst hjá Króötum sem eru í mikilli safnauppbyggingu við erfiðar aðstæður. ,,Saga Síldarminjasafnsins hljómaði greinilega eins og fyrirmynd að því hvernig hægt er að byggja eitthvað mikilvægt og glæsilegt fyrir staðinn og jafnvel alla þjóðina. Sérstaklega voru stúdentar í safnafræðum við Háskólann í Zagreb áhugasamir um reynslu okkar”. Þess má ennfremur geta að Króatíska sjónvarpið tók viðtal við Chris um stöðu Síldarminjasafnsins.Annað sæti?Þótt ekki hafi verið veitt verðlaun fyrir annað og þriðja sæti í safnakynningunni – segir í stórri grein í Vjesnik, eins stærsta dagblaðs Króatíu – var fyrirlesturinn um Síldarminjasafnið á Siglufirði ekki síður áhrifamikill en verðlaunafyrirlesturinn og hefði tvímælalaust á skilið önnur verðlaun. Þar kom fram hvernig allt er samofið síldinni, safnið, samfélagið, fortíð og framtíð. Með þessari grein í blaðinu fylgdi ein mynd og var hún af Roaldsbrakka. Til þátttöku í ráðstefnunni naut Síldarminjasafnið styrkja frá Menntamálaráðuneytinu, Verkalýðsfélaginu Vöku og Siglufjarðarkaupstað.Örlygur Kristfinnsson