Rúmar þrjár milljónir til menningarverkefna í Fjallabyggð

Reitir, alþjóðleg listasmiðja, fékk styrk frá Menningarráði Eyþings. Hér er einn af forsvarsmönnun h…
Reitir, alþjóðleg listasmiðja, fékk styrk frá Menningarráði Eyþings. Hér er einn af forsvarsmönnun hátíðarinnar Andri Ómarsson. (Mynd: reitir.com)
Í síðustu viku tilkynnti Menningarráð Eyþings um úthlutun á 42 milljónum króna til menningarstarfs á starfssvæði Eyþings, annars vegar til verkefnastyrkja 
og hins vegar til stofn- og rekstrarstyrkja.
Þetta er í tíunda sinn sem úthlutað er verkefnastyrkjum samkvæmt samstarfssamningi mennta- og menningarmálaráðuneytis, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og sveitarfélaga í Eyþingi um menningarmál. Menningarráðinu bárust samtals 130 umsóknir um verkefnastyrki þar sem sótt var um rúmar 85,5 milljónir króna og hljóta 66 verkefni styrk að upphæð 29 milljónir króna. Heildarkostnaður við verkefnin er 422,5 milljónir króna.

Að þessu sinni er rúmum 3.0 milljónum króna úthlutað til verkefna í Fjallabyggð auk þess sem Þjóðlagasetur Sr. Bjarna Þorsteinssonar fær 1.200.00 kr. í rekstrarstyrk. 

Eftirtalin verkefni í Fjallabyggð hlutu styrk:
Ljóðahátíðin Haustglæður (Ungmennafélagið Glói): 100.000 kr.
Ungmennafélagið Glói stendur fyrir tveggja mánaða dagskrá þar sem ljóðinu verður gert hátt undir höfði með ýmsum viðburðum í samvinnu við fjölmörg ljóðskáld.

Lifandi viðburðir á Ljóðasetri Íslands (Félag um ljóðasetur Íslands): 100.000 kr.
Frá júní fram í miðjan ágúst verður boðið upp á lifandi viðburði alla daga í Ljóðasetri Íslands.

Í landlegu (Þórarinn Hannesson): 200.000 kr.
Setja á upp einleik á Síldarminjasafni Íslands þar sem varpa á ljósi á stemningu
síldarárana, s.s. síldveiðar, landlegu, tíðarandann, söltunina og stemninguna á bryggjunni. Verkefnið er samstarfsverkefni Þórarins Hannessonar, Síldarminjasafns Íslands og Ljóðaseturs Íslands.

Ganga og söngur (Listhúsið Ólafsfirði): 200.000 kr.
Ganga og söngur. Listhús í Fjallabyggð stendur fyrir vinnustofum fyrir ungt fólk í Fjallabyggð í
samstarfi við franska leikkonu, söngvara og tónskáld og Blue North Music Festival North
tónlistarhátíðina. Gengið verður um Fjallabyggð þar sem safnað verðu efni til að skapa nýja söngva. Afraksturinn verður sýndur að loknum vinnustofunum, utan- og innandyra.

Solar Parcel (Listhúsið í Ólafsfirði): 300.000 kr.
Listhús Fjallabyggðar stendur fyrir skiptinámi við Fotolouge Culture í Hong Kong. Markmið er að kenna pinhole ljósmyndun og skiptast á solargraphy listaverkum við þátttakendur í Hong Kong.

Ungt-blús (Jassklúbbur Ólafsfjarðar): 300.000 kr.
Ungmennum af Eyþingssvæðinu verður boðið spila á útitónleikum á Blue North Music Festival með atvinnumönnum. Áhugaverðasta atriðið mun síðan koma fram á lokakvöldi blúshátíðarinnar.

Þjóðlagahátíðin á Siglufirði, París - Sigló: 500.000 kr.
Í ár verður lögð áhersla á franska tónlist. Á hátíðinni koma fram íslenskir og erlendir tónlistarmenn auk þess sem haldin verða námskeið í tónlist.

Menningarstarfsemi í Alþýðuhúsinu á Siglufirði (Aðalheiður Eysteinsdóttir): 500.000 kr.
Á árinu 2014 mun Alþýðuhúsið standa fyrir víðtækri menningarstarfsemi með áherslu á myndlist. Fjölmargir viðburði verða á árinu, s.s. menningardagur barna, tónleikar og listsýningar.

Reitir (Arnar Ómarsson): 840.000 kr.
Alþjóðlegt samvinnuverkefni sem fram fer á Siglufirði. Reitir eru í samstarfi við Alþýðuhúsið og ýmsa hópa bæði erlenda og íslenska. Reitir byggja hugmynd um að með því að blanda saman mörgum ólíkum starfsgreinum nýtist fjölbreytt reynsla þátttakenda sem grunnur að nýstárlegum verkum sem fjalla á einn eða hannað hátt um Siglufjörð. Reitir er grunnur að skapandi alþjóðasamstarfi í þágu bæjarins en er einnig miðpunktur í vaxandi tengslaneti sem tengir sig þvert yfir heiminn.

Heildarúthlutun Menningarráðs má sjá hér.