Risahelgi framundan í Fjallabyggð – eitthvað fyrir alla

Skemmtilegt hvernig helgarnar í Fjallabyggð eru stundum stútfullar af menningu og listum en komandi helgi verður einmitt ein slík og er óhætt að fullyrða að allir, ungir sem aldnir, munu finna eitthvað við sitt hæfi í Fjallabyggð um helgina.

Dagskráin hefst strax í dag fimmtudaginn 2. maí í Menningarhúsinu Tjarnarborg í Ólafsfirði milli 17:00 og 19:00 á Töfrum og sjónhverfingum Einars Mikaels töframanns. Einar Mikael  hefur notið ómældra vinsælda meðal yngstu kynslóðarinnar. Töfrar og sjónhverfingar er ný sýning sem er troðfull af ótrúlegum töfrabrögðum og mögnuðum sjónhverfingum. Einar leyfir áhorfendum að taka virkan þátt í sýningunni og velur hann oftar en ekki unga áhorfendur úr sal til að aðstoða hann í töfrabrögðunum nú er um að gera að nýta tækifærið og sjá Einar Mikael með öll sín bestu atriði.

Föstudaginn 3. maí verður Tríó Richard Andersson NOR með tónleika í Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Richard Andersson NOR frumfluttu aðra plötu sína, „The six of us”, á Reykjavik Jazzfestival 2018.  Hljómsveitina skipa þeir Richard Andersson á kontrabassa, Óskar Guðjónsson leikur á saxófón og Matthías Hemstock á trommunum.

Plöntuskiptidagur verður á Frida Súkkulaðikaffihúsi föstudaginn 3. maí milli 16.00-18:00 og eru allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. Pottaplöntur hafa orðið æ vinsælli að undanförnu og þar sem nú er tíminn til að umpotta þeim og jafnvel skipta upp plássmiklum plöntum þá er hugmyndin að opna fyrir möguleikann á því að koma með alla afleggjarana sem hafa orðið til við það að umpotta, skipta á þeim við einhvern sem langar og fara kannski heim með alveg nýja plöntu sem þú átt ekki heima. Örugglega skemmtilegt og jafnvel fróðlegt. Frítt uppáhellt kaffi í tilefni dagsins.

Fjölskyldusirkushelgi verður í Fjallabyggð laugardag og  sunnudag í Íþróttahúsinu í Ólafsfirði frá kl. 10:00-17:00 alls 12 klst. námskeið. Hér er um að ræða skemmtilegt og spennandi verkefni sem unnið er undir formerkjum heilsueflandi nálgunar. Dagskráin er sérstaklega sniðin að því að fjölskyldan og samfélagið allt geti tekið þátt óháð aldri og stærð. Markmið kennslunnar er að þátttakendur geti eftir að námskeiðinu lýkur nýtt sér það sem þau lærðu til að leika og njóta. Þátttakendur fá kennslugögn sem innihalda minnislista yfir þau trix sem kennd voru, leiðbeiningar um það hvaða áhöld megi nota í stað sérhæfðra sirkusáhalda og leiðbeiningar um það hvar á vefnum sé að finna góð kennslumyndbönd fyrir þau sem vilja halda áfram að bæta við þá kunnáttu sem þau öðluðust um helgina. Hver smiðja getur tekið við 50 þátttakendum frá grunnskólaaldri og upp úr og ennþá eru laus pláss.

Laugardaginn 4. maí opnar Hrönn Einarsdóttir ljósmyndasýningu í Ráðhússal Fjallabyggðar og stendur sýningin fram á sunnudaginn 5. maí. Opið verður báða dagana milli kl. 13:00-18:00.

Laugardaginn 4. maí bjóða Umf Glói ogLjóðasetur Íslands íbúum og gestum í leikhús í Bláa húsinu hjá Rauðku, Siglufirði frá 15:00 til 16:00. En það er Kómedíuleikhúsið sem sýnir hið ástsæla leikrit Dimmalimm sem sýnt hefur verið í Þjóðleikhúsinu við miklar vinsældir núna í vor. Dimmalimm er án efa eitt ástsælasta ævintýri þjóðarinnar. Sagan er eftir listamanninn Mugg frá Bíldudal. Ævintýrið fjallar um prinsessuna Dimmalimm sem eignast góðan vin sem er stór og fallegur svanur. En eins og í öllum góðum sögum þá gerist eitthvað óvænt og ævintýralegt.

Karlakórinn í Fjallabyggð verður með söngskemmtun í Menningarhúsinu Tjarnarborg laugardaginn 4. maí kl. 21.00. Á efnisskránni verða m.a. hefðbundin karlakórslög, einsöngur, tvísöngur, þekkt dægurlög úr ýmsum áttum, lög úr kvikmyndum, smá kántrí, o.fl.  Gestir kórsins verða hin frábæru Ronja og ræningjarnir, ungliðahljómsveit úr Fjallabyggð skipuð þeim Ronju Helgadóttur söngkonu, Tryggva og Júlíusi Þorvaldssonum sem spila á gítar og syngja, Mikael Sigurðssyni bassa, Herði Inga Kristjánssyni á píanó og Kristjáni Má Kristjánssyni trommum.

Alþýðuhúsið á Siglufirði verður með sunnudagskaffi með skapandi fólki sunnudaginn 5. maí en þar mun Már Örlygsson hönnuður halda erindi um endurkynni sín af Fjallabyggð, um lífsgæði og um hagkvæmni smæðarinnar. Hvernig líta má á félagsauðinn í litlum samfélögum sem auðlind sem má virkja á skipulagðan hátt með útsjónarsemi og skapandi hugsun, til að ná samkeppnisforskoti á stærri þéttbýliskjarna. Már er uppalinn Siglfirðingur en flutti til Reykjavíkur 1991 til að fara í menntaskóla. Hann útskrifaðist  úr skúlptúrdeild LHÍ 2001 en hefur unnið við vefhönnun og forritun í rúm 20 ár.  Fyrir ári síðan fluttist Már aftur til Siglufjarðar eftir að hafa verið með annan fótinn í bænum mörg ár þar á undan.

Allar nánari upplýsingar um viðburði helgarinnar er meðal annars að finna í viðburðadagatali á heimasíðu Fjallabyggðar.  Einnig er fólki bent á Facebook síður viðburða.

Athugið að listinn er ekki tæmandi.