Ríkharður Hólm Sigurðsson kvaddur hinstu kveðju

Ríkharður Hólm Sigurðsson bæjarfulltrúi fæddist í Ólafsfirði 19. maí 1954. Hann varð bráðkvaddur 10. október sl. og verður jarðsunginn frá Ólafsfjarðarkirkju í dag kl. 14.

Ríkharður var varamaður í bæjarstjórn Fjallabyggðar í upphafi kjörtímabils. Í október 2015 tók hann sæti sem aðalmaður í bæjarstjórn og tók við stöðu forseta bæjarstjórnar. Í desember 2016 varð hann 1. varaforseti bæjarstjórnar og gegndi þeirri stöðu til dánardags.

Ríkharður var öflugur bæjarfulltrúi og nefndarmaður og var aðalmaður í bæjarráði, fræðslu- og frístundanefnd og félagsmálanefnd. Þá var hann varamaður í skipulags- og umhverfisnefnd og hafnarstjórn auk þess sem hann gegndi öðrum trúnaðarstöðum fyrir Fjallabyggð. Áður hafði hann gegnt trúnaðarstöðum fyrir Ólafsfjarðarbæ.

Bæjarstjórn, nefndarmenn og starfsfólk Fjallabyggðar þakka Ríkharði fyrir vináttu, samstarf og góð störf í þágu samfélagsins og votta aðstandendum hans innilega samúð.