Rekstur- og umsjón tjaldsvæða í Fjallabyggð sumarið 2019

Mynd: Magnús R. Magnússon
Mynd: Magnús R. Magnússon

Bæjarráð Fjallabyggðar hefur samþykkt að ganga til samninga við Kaffi Klöru ehf. um rekstur- og umsjón tjaldsvæða í Fjallabyggð.

Fjallabyggð auglýsti eftir aðila/aðilum sem kunnu að hafa áhuga á að taka að sér rekstur og umsjón með tjaldsvæðum Fjallabyggðar á Siglufirði og í Ólafsfirði sumarið 2019. Um er að ræða þrjú tjaldsvæði, við íþróttamiðstöðina í Ólafsfirði, í miðbæ Siglufjarðar og sunnan við snjóflóðavarnargarðinn Stóra Bola á Siglufirði. Í auglýsingunni kom fram að möguleiki væri á að sækja um rekstur allra tjaldsvæðanna eða tjaldsvæði annars bæjarkjarnans. Sumarrekstur tjaldsvæða hefst að jafnaði 12. maí og lýkur 15. október, ef aðstæður leyfa. Samningur er gerður til eins árs með möguleika á framlengingu.

Núverandi rekstraraðilar Kaffi Klöru ehf. hafa séð um rekstur tjaldsvæðisins á Ólafsfirði síðustu 3 ár og hefur starf þeirra gengið vel og samstarf við Fjallabyggð hnökralaust. Rekstraraðilar Kaffi Klöru hafa skýra sýn á rekstur tjaldsvæðanna og hvernig þeir sjá fyrir sér viðveru og umsjón með tjaldsvæðunum í báðum byggðarkjörnum. Kaffi Klara hefur yfir að ráða nægjum mannafla til að mæta álagstímum s.s. þegar bæjarhátíðir eða annasamar helgar eru í sveitarfélaginu og geta því fært starfsfólk á milli bæjarkjarna til að mæta auknu álagi. Rekstraraðilar Kaffi Klöru eru öllum hnútum kunnugir þegar kemur að rekstri tjaldsvæða og starfsmenn Kaffi Klöru með reynslu af vinnu og umsjón með tjaldsvæðis í Ólafsfirði.

Alls bárust sex umsóknir um starfið sem auglýst var í byrjun febrúar.  Að mati deildarstjóra og markaðs- og menningarfulltrúa sem fóru yfir umsóknir og tóku viðtöl er sú reynsla og þekking sem rekstraraðilar Kaffi Klöru hafa öðlast af rekstri tjaldsvæðis í Ólafsfirði mjög góð og því sé fyrsti kostur að ganga til samninga við Kaffi Klöru um rekstur- og umsjón tjaldsvæða í Fjallabyggð.