Rauði krossinn á Íslandi 90 ára 2014. Ný heimasíða opnuð í dag.

Á næsta ári mun Rauði krossinn á Íslandi fagna því að 90 ár eru liðin frá stofnun félagsins. Tímamótunum verður fagnað vel og innilega allt árið með því að gera það sem Rauði krossinn gerir best, að hjálpa fólki og hugsanlega bjarga mannslífum. 
Afmælisárið verður tileinkað skyndihjálp og fær þjóðin að gjöf kynningarherferð á málefninu. Markmið átaksins er að byggja upp kunnáttu og færni almennings í skyndihjálp, þannig að fleiri Íslendingar geti brugðist rétt við slysum eða óvæntum veikindum að afmælisárinu liðnu. 
Af því skyndihjálp er víðfemt og flókið viðfangsefni verður áhersla lögð á fjóra mikilvæga þætti hennar, að beita endurlífgun, losa aðskotahlut úr hálsi, að bregðast við bruna og blæðingu. 

Þann 10. desember nk. þegar félagið verður 89 ára, mun forseti Íslands opna nýja vefsíðu, www.skyndihjalp.is, sem tileinkuð er átakinu auk þess sem hann opnar Neyðarmiðstöð Rauða krossins sem á að samhæfa betur neyðarviðbrögð félagsins á tímum áfalla. Afmælisárið verður að þessu tilefni kynnt og herferðinni ýtt úr vör. Frá og með sama degi gefst landsmönnum færi á að hala niður skyndihjálparappi Rauða krossins, þar sem finna má allar helstu upplýsingar um skyndihjálp. Appinu verður hægt að hala niður í öll android tæki, Iphone síma og Ipad spjaldtölvur, neytendum að kostnaðarlausu. 

Á afmælisárinu mun Rauði krossinn útbúa skemmtilegt, fræðandi og fjölbreytt efni fyrir alla aldurshópa, til dæmis tónlist, húmorískar teiknimyndir og stuttmyndir, sem ganga út á að sýna réttu handtökin í skyndihjálp. Rauði krossinn mun reglulega minna á sig á árinu með uppákomum, til dæmis verður skyndihjálparmaður ársins valinn í febrúar, Rauði krossinn mun prýða forsíðu símaskrárinnar, uppákomur tengdar útihátíðum verða í sumar, aukið framboð skyndihjálparnámskeiða verður um allt land á árinu ásamt því að grunnskólum víða um landið mun standa til boða að fá stutta heimsókn frá Rauða krossinum þar sem nemendum verða kennd áðurnefnd fjögur atriði skyndihjálpar. 

Við vonum að allir þeir sem hafa áhuga á málefninu leggist á eitt og nýti meðbyrinn þannig að markmið Rauða krossins á Íslandi um að efla kunnáttu Íslendinga í skyndihjálp náist. 
Frekari upplýsingar veitir Þórunn Lárusdóttir, verkefnisstjóri afmælisárs Rauða krossins í síma 570 4049