Rannsóknin: Áfallasaga kvenna - konur tökum þátt !

Fjallabyggð vekur athygli á rannsókninni Áfallasaga kvenna sem hófst á vormánuðum 2018 og hvetur konur í sveitarfélaginu til að taka þátt. Rannsóknin stendur til 1. maí nk. 

Rannsókninni Áfallasaga kvenna miðar að því að skapa þekkingu á umfangi, áhættuþáttum og heilsufarslegum afleiðingum áfalla og ofbeldis gegn konum en samfélagsleg umræða síðasta árs sýnir að það er mikilvægt að varpa ljósi á vægi áhrifa þessara þátta á heilsufar kvenna hér á landi. Rannsóknin er fjármögnuð af Evrópska rannsóknarráðinu og Rannís og er ein stærsta vísindarannsókn sem framkvæmd hefur verið á þessu sviði á heimsvísu.

Öllum konum á Íslandi, 18 ára og eldri, býðst að taka þátt í rannsókninni með því að svara rafrænum spurningalista um áfallasögu sína og heilsufar. Viðtökur við rannsókninni hafa verið góðar - hingað til hafa rúmlega 30 þúsund konur tekið þátt í rannsókninni en skráning nýrra þátttakenda stendur yfir til 1. maí nk. Góð þátttaka kvenna skiptir sköpum fyrir vísindalegt gildi rannsóknarinnar og svör allra kvenna skipta máli óháð því hvort þær eiga mikla, litla eða enga sögu um áföll.

Vísbendingar eru þegar til staðar um að áföll og ofbeldi hafi hugsanlega enn meiri áhrif á heilsufar og sjúkrafjarvistir kvenna en hingað til hefur verið talið. Rannsóknin Áfallasaga kvenna er mikilvægur liður í því að skapa örugga vísindalega þekkingu á algengi og vægi áfalla í heilsufari kvenna.

Allar upplýsingar um rannsóknina má finna á vefsíðunni www.afallasaga.is en einnig er hægt að hafa samband  í tölvupósti (afallasaga@hi.is) eða símleiðis (s. 525-5500) ef frekari upplýsinga er óskað.