Gull finnst í Héðinsfjarðargöngum

Starfsmönnum Metrostav (Ólafsfjarðarmegin) brá heldur en ekki í brún aðfararnótt mánudagsins þegar þeir komu inn til að hreinsa upp eftir síðustu sprengingu. Innst í göngunum lágu misstórir gullmolar út um allt. Við nánari athugun kom í ljós að sprengd hafði verið upp lítil gullæð í fjallinu. Oddur Sigurðsson hjá Geotek segir að ekki hafi verið vitað um þessa gullæð eða hvort fleiri leynist í fjallinu. Hann sagði einnig að engin ákvörðun hefði verið tekin um nýtingu gullsins. Gera þurfi frekari rannsóknir til að kanna hvort nægjanlegt magn sé til nýtingar. Von er á áströlskum sérfræðingum til að taka sýni úr æðinni og mæla út með bergmálsmælingum hvort fleiri æðar sé þarna að finna. Fundur þessi er talinn frekar lítill en góðar vonir eru um að fleiri æðar séu til staðar á Tröllaskagasvæðinu.

Nýlegur dómur hæstaréttar(nr. 645/2006) þar sem málsaðilar deildu um hvort jarðefni, sem kom út úr veggöngunum, hafi verið háð eignarrétti, vekur hins vegar upp spurningar um hver megi nýta gullið. Í fyrrgreindum dómi telur hæstiréttur að Vegargerðinni sé heimilt að nýta jarðefni sem komu úr göngunum þar sem áætlaður kostnaðar af vinnslu efnisins, ef um efnistökugöng hefði verið að ræða, hefði verið svo hár að verðgildi efnisins hefði einungis verið lítið brot af kostnaðinum við efnisnámið. Eins og er hefur gullið verið keyrt burtu með öðru jarðefni sem kemur úr göngunum.