Pistill bæjarstjóra 4. maí 2022 - Ársreikningur Fjallabyggðar 2021

Mynd: Elías Pétursson
Mynd: Elías Pétursson

Í gær, 3. maí, var ársreikningur Fjallabyggðar vegna ársins 2021 tekin til fyrri umræðu í bæjarstjórn Fjallabyggðar. Var honum, að aflokinni þeirri umræðu, vísað til seinni umræðu í bæjarstjórn með sjö samhljóða atkvæðum. Sú umræða mun fara fram þann 11. maí nk.

Segja má  að niðurstaða ársreiknings hvers árs sé fyrir bæjarstjóra hluti einkunnabókar sem segir til um hversu vel til hafi tekist við rekstur sveitarfélagsins og meðferð almannafjár á liðnu ári. Sá er þetta skrifar er nokkuð ánægður með niðurstöðu reikningsins um leið og hann telur að mögulegt sé að ná enn betri árangri í því efni á komandi árum. Það er nefnilega alltaf hægt að gera betur.

Undanfarið ár hefur einkennst nokkuð af auknum útgjöldum vegna covid-farsóttar sem nú hefur vonandi kvatt okkur, umtalsverðum launahækkunum, auknum launakostnaði vegna styttingar vinnuviku og ýmsu öðru sem alltaf má ráð fyrir gera að komi upp í rekstri sveitarfélags. Þá er líka rétt að geta þess að ýmislegt hefur  fallið með okkur, svo sem hærri tekjur en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Svo farið sé yfir helstu niðurstöður ársreikningsins þá eru þær með þeim hætti að rekstrarniðurstaða samstæðu (A og B-hluta) er neikvæð um 154,9 millj.kr. en var jákvæð um 77,0 millj.kr. árið 2020, rekstrarniðurstaða A-hluta er neikvæð um 184,2 millj.kr. en var jákvæð um 26,1 millj. 2020.

Meginástæða lakari afkomu, en áætlun gerði ráð fyrir, er hækkun á lífeyrskuldbindingu vegna ytri ákvarðana um breytingar á forsendum útreikninga. Ef ekki hefði komið til umræddrar mjög svo óvæntrar hækkunar á lífeyrisskuldbindingum hefði rekstrarniðurstaða samstæðunnar orðið jákvæð um 30 millj.kr., og rekstrarniðurstaða A-hluta hefði verið nánast í jafnvægi.

Veltufé frá rekstri nam 331,2 millj.kr., eða 10.1% af tekjum, en var á hinn bóginn 377,3 millj.kr. árið 2020 (12.1%). Handbært fé frá rekstri hækkaði um 53,1 millj.kr. á árinu og nam í árslok 413,2 millj.kr. Veltufjárhlutfall sveitarfélagsins er því 1,50 sem verður að teljast mjög gott. Fjárfestingar 2021 námu 222,3 millj.kr. Engin ný lán voru tekin árið 2021.

Vaxtaberandi skuldir námu í árslok alls 284,9 millj.kr og höfðu lækkað um 31,1 millj.kr. á árinu. Til fróðleiks má nefna að vaxtaberandi skuldir voru um síðustu áramót 10,1% af tekjum ársins. Vert er einnig að geta þess að sala á 16 íbúðum í eigu sveitarfélagsins mun leiða til enn frekari lækkunar skulda, þ.e. um 150 millj.kr. og þannig ríflega helminga núverandi vaxtaberandi skuldir.

Allt það sem að ofan greinir sýnir svo ekki verður um villst að Fjallabyggð stendur fjárhagslega  afar styrkum fótum og er svo sannarlega vel í stakk búin til að takast á við verkefni framtíðarinnar.

Að lokum vil ég þakka innilega öllu mínu góða samstarfsfólki hér í stjórnsýslunni, öllu starfsfólki sveitarfélagsins sem og bæjarstjórn fyrir samvinnuna á síðasta ári. Ljóst er að án alls þess fólks hefði sá góði árangur sem sjá má stað í ársreikningi ekki náðst, né heldur væri staða sveitarfélagsins jafn sterk og raun ber vitni.

Elías Pétursson

bæjarstjóri