Pálshús Ólafsfirði - Árni Rúnar Sverrisson myndlistasýningin "Ferðasaga"

Laugardaginn 30. maí sl. opnaði í Pálshúsi Ólafsfirði sýning Árna Rúnars Sverrissonar  “ Ferðasaga”. Sýningin verður opin á opnunartíma Pálshúss til 26. júlí. 

Árni Rúnar Sverrisson (f. 1957) lærði myndlist í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Mynlistarskóla Reykjavíkur og hefur sýnt mikið frá því hann hélt sína fyrstu einkasýningu á Mokka 1989. Árið 1999 dvaldi hann á Sikiley þar sem hann starfaði að list sinni en hefur fyrst og fremst unnið og sýnt á Íslandi þar sem hann á að baki á þriðja tug einkasýninga auk þess sem hann hefur tekið þátt í samsýningum og samkeppnu

Árni Rúnar byrjaði að sýna málverk sín fyrir meira en þremur áratugum.  Hann fór snemma sínar eigin leiðir og þróðaði upp sérstakt myndmál þar sem óheft litaflæði réð ríkjum.  Stundum var eins og myndirnar væru að springa af lit þegar pensilstrokunar hlykkjuðust hver um aðra þar til flöturinn virtist iða og tifa af krafti.  Þótt ekki væri um landslag að ræða var náttúran einhvern veginn nærri í þessum verkum – kannski fyrst og fremst í þessari orku.  Átök málarans við litina og pensilinn voru slík að helst var eins og náttúruöflin sjálf töluðu í gegnum hann.  Stundum var þessi orka beisluð í fastri myndbyggingu en oftar en ekki flæddi hún út um allan myndflötinn og var þá jafnvel eins og dygði ekki til og að striginn væri aðeins eins og brot úr annarri og miklu stærri mynd.

Hin síðari ár hafa málverk Árna Rúnars breytt mikið um svip.   Náttúran er hér enn nálægari en í fyrri verkunum og með allt öðrum hætti.  Litaskalinn er orðinn þrengri og náttúrulitir skýrar afmarkaðir.  Í þessum myndum beinir Árni Rúnar sjónum sínum að skófum og fléttum sem hlaðast á steina og kletta í landslaginu og við sjám ekki greinilega fyrr en við færum okkur nær eða jafnvel skoðum þá með stækkunargleri í nærmynd.  Þessa veröld nær hann að fanga svo nákæmlega í málverkum sínum að undrum sætir.  Enn þá flæða myndirnar um allan strigann án þess að hirt sé um miðaða myndbyggingu eða meginform.  Aðferðin er öll agaðri og þó mikið flóknari og fjölbreyttari en áður.  Í stað þess að leyfa lithlöðnum penslinum að þjóta um byggir Árni Rúnar nú myndir sínar upp á lögum og leggur áherlsu á áferð myndflatarins og mynsturbyggingu.  Hann notar líka mismunandi efni og leyfir þeim að vinna eftir sínu eðli þannig að sumir fletir verða háfgegnsæir meðan aðrir liggja ofan á og krumpast til þegar þeir þorna .  Hér er það ekki hin óhefta orka og stóru hreyfingar landsins sem við greinum heldur er miklu frekar eins og horft sé inn í yfirborðið.  Þessi verk eru undarlega ágeng og auðvelt að gleyma sér við stóra myndfletina og láta skynjunina sökkva inn í litaflétturnar.  Málverkin klippa áhorfandann frá sínu venjulega sjónarhorni á náttúruna og varpa honum inn í smáveröld steinanna og þeirra harðgeru plantna sem þrífast á vindsorfnu og frostsprungnu yfirborði þeirra.  Þar sjáum við samhengið milli þess stóra og hins smáa og getum velt fyrri okkur undrum náttúrunnar sem endurspeglar bæði reglu og óreglu sína hvert sem litið er – jafnvel í grjótinu undir fótum okkar.                        

Jón Proppé

Pálshús verður opið verður alla daga í sumar frá kl. 13:00-17:00.