Opið hús í Herhúsinu

Gunnella býður alla velkomna í heimsókn í Herhúsið laugardaginn 4. október frá kl. 15 - 18

Ég hef notið þess að dvelja og vinna í Herhúsinu sl. mánuð og langar til að þakka fyrir mig með því að hafa opið hús og bjóða alla velkomna í heimsókn. Það hefur verið hreint frábært að vinna hér, aðstaðan öll til fyrirmyndar, næði til að vinna og ekki þarf að fara langt til að ná sér í mótiv og fá hugmyndir og það hef ég líka nýtt mér.

Mér finnst alltaf gott að koma til Siglufjarðar. Hér á ég margar ljúfar minningar frá því ég dvaldi hjá ömmu minni á sumrin og hin síðari ár hef ég komið hingað í frí og afslöppun og hitta gamla vini. Ég hélt sýningu hér síðast í Ráðhúsinu, mig minnir 2004, og stóð stjórn Herhússins einmitt að þeirri sýningu, en ég hef ekki áður dvalið og unnið í Herhúsinu. Það hefur verið hrein upplifun, andleg næring og mikil orkugjöf.

Gaman væri að sjá sem flesta á laugardaginn.

--------------------------------------------------------------------------

bestu kveðjur og þakkir

gunnella