Olga heimsækir Fjallabyggð

Alþjóðlegi sönghópurinn Olga verður með tónleika í Tjarnarborg fimmtudaginn 26. júní kl. 20:00. Tónleikarnir marka upphaf Blúshátíðarinnar í ár.
Í hópnum eru tveir Íslendingar, þeir Bjarni Guðmundsson (fyrsti tenór) og Pétur Oddbergur Heimisson (bass-barítón). Ásamt þeim eru Hollendingarnir Gulian van Nierop (barítón) og Jonathan Ploeg (annar tenór) og Rússinn Philip Barkhudarov (bassi). Hópurinn kynntist í Tónlistarskóla HKU í Utrecht í Hollandi en þar nema þeir söng undir handleiðslu Jóns Þorsteinssonar.
Sönghópurinn hefur komið áður til Íslands og haldið tónleika víðsvegar um landið og hefur vakið mikla athygli fyrir fjölbreytt lagaval og skemmtilega framkomu.
Flutt verða bæði íslensk sem erlend sönglög. Hópurinn syngur allt án undirleiks.
Miðaverð á tónleikana er 2.500 kr.Upplýsingar og myndir fengnar af heimasíðu sönghópsins. www.olgavocalensemble.com