Nýr viðlegukantur Bæjarbryggjunnar á Siglufirði var formlega vígður

Ólöf Nordal og Gunnar Birgission
Ólöf Nordal og Gunnar Birgission

Nýr viðlegukantur Bæjarbryggjunnar á Siglufirði var formlega vígður föstudaginn 30. september. Innanríkisráðherra, Ólöf Nordal, klippti á borða og opnaði mannvirkið formlega til notkunar.

Framkvæmdir hófust í febrúar 2016 við fyllingu og niðurrekstur á stálþili, sem er 227 metra langt. Annar viðlegukanturinn er 155 metra langur og hinn um 60 metrar. Þá var innsiglingin að Siglufjarðarhöfn og einnig hluti hafnarinnar dýpkað niður í – 9,0 metra. Eftir er að steypa þekju á höfnina, en það verður gert næsta vor eftir að fyllingin hefur sigið.

Gamli viðlegukanturinn var orðinn sundurryðgaður og ónýtur og því var þessi framkvæmd löngu tímabær. Endurbætt og stækkuð Hafnarbryggjan mun mæta þörfum útgerða í heimabyggð ásamt skipum annarra útgerða. Einnig er hægt að taka á móti stærri skemmtiferða- og flutningaskipum.

Heildarkostnaður við þessa miklu framkvæmd er ríflega 550 m.kr. Hafnarbótasjóður styrkir byggingarhluta verkefnisins um 75% og dýpkunarhluta um 60% þannig að hlutur Fjallabyggðar er um 150 m.kr. og Hafnarbótasjóðs um 400 m.kr.

Hafnarbryggjan var upphaflega vígð í byrjun nóvember 1928. Norðurhliðin var þá 70 metra löng, austurhlið 80 metrar og suðurhlið 45 metrar. Bæjarbryggjan var endurbyggð á árunum 1957 til 1964 og svo núna.

Af bryggjunni  Ólof Nordal

Af bryggjunni   Fiskmarkaður

Yfirlitsmynd af bæjarbryggjunni  Ólof Nordal