Ný löggjöf á sviði ferðamála tekur gildi 1. janúar 2019

Ferðamálstofa minnir á að um áramót tekur gildi ný löggjöf á sviði ferðamála.

Þann 1. janúar nk. taka gildi ný lög um Ferðamálastofu nr. 96/2018 og lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun nr. 95/2018.

Breytt skilgreining á pakkaferð og innleiðing svokallaðrar samtengdrar ferðatilhögunar getur leitt til þess að gististaðir, sem bjóða viðbótarþjónustu, verði leyfis- og tryggingarskyldir sem ferðaskrifstofur. Sem dæmi má nefna gististaði sem auglýsa og bjóða heilsu-/spahelgi sem felur í sér gistingu og heilsutengda þjónustu, hvort sem þjónustan er seld á heildarverði eða ekki. Annað dæmi eru hótel sem útbúa pakka fyrir gesti sína. Bókun á netinu leiðir oft til þess að til verður svokölluð samtengd ferðatilhögun, það getur til dæmis gerst ef gestur fær tilboð um kaup á viðbótar þjónustu við bókun eða með bókunarstaðfestingu. Því verða forsvarsmenn gististaða að kynna sér nýja löggjöf vel, öðlast góðan skilning á þeim hugtökum sem þar eru notuð og sækja um leyfi ef við á.

Lög um Ferðamálastofu.
Helstu breytingar lúta að leyfismálum, skyldu til að gera öryggisáætlanir og heimildum Ferðamálastofu til að leggja á dagsektir.

Leyfismál.
Leyfi verða tvenns konar; ferðaskrifstofuleyfi  og leyfi sem ferðasali dagsferða, bókunarþjónustur leggjast af.
Gististaðir, sem veita aðra þjónustu en gistingu, eða beina gestum sínum í aðra þjónustu, verða að skoða starfsemi sína út frá hinni nýju löggjöf.

Seljendur pakkaferða, þ.e. skipuleggjendur og smásalar, og þeir sem hafa milligöngu um samtengda ferðatilhögun, verða leyfisskyldir sem ferðaskrifstofur og tryggingarskyldir skv. lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Hægt verður að sækja um leyfi samkvæmt nýrri löggjöf frá 1. janúar 2019.

Öryggisáætlanir.
Öllum sem framkvæma eða hyggjast framkvæma skipulagðar ferðir innan íslensks yfirráðasvæðis verður, frá 1. janúar 2019, skylt að hafa skriflegar öryggisáætlanir, á íslensku og ensku, fyrir hverja tegund ferða. Óheimilt verður að bjóða ferð til sölu eða kynna á nokkurn hátt ef öryggisáætlun liggur ekki fyrir.
Leiðbeiningar varðandi öryggisáætlanir má nálgast á vef Ferðamálastofu.

Lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun.
Með lögunum er tilskipun ESB um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun nr. 2015/2302 innleidd í íslenskan rétt. Markmið laganna og tilskipunarinnar er aukin neytendavernd og eru skyldur þeirra sem selja pakkaferðir  eða hafa milligöngu um samtengda ferðatilhögun  skilgreindar í lögunum. Jafnframt er kveðið á um aukin réttindi ferðamanna.

Nauðsynlegt er að forsvarsmenn gististaða, sem bjóða viðbótarþjónustu eða beina gestum sínum í kaup á viðbótarþjónustu sem leiðir til leyfis og tryggingarskyldu samkvæmt nýrri löggjöf, kynni sér sérstaklega ákvæði laga nr. 95/2018 um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun.

Á vef Ferðamálastofu er að finna frekari upplýsingar um nýja löggjöf sem nauðsynlegt er að skoða vel. Upplýsingum og frekara skýringarefni verður bætt á vefinn á næstu dögum og vikum eru forsvarsmenn og starfsfólk ferðaþjónustufyrirtækja hvött til að fylgjast vel með uppfærslum á vefnum.

Vakin er athygli á því að á vef Ferðamálastofu er að finna flæðirit sem auðveldar að skilgreina hvort starfsemi fellur undir lög nr. 95/2018 um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun og annað sem auðveldar að skilgreina hvort sala þjónustu leiðir til samtengdrar ferðatilhögunar.