Ný heimasíða Fjallabyggðar

Opnuð hefur verið ný heimasíða Fjallabyggðar. Markmið þessarar nýju síðu er að efla hlutverk síðunnar sem upplýsingavefur um sveitarfélagið fyrir íbúa þess og gesti, á þann hátt að þeir eigi tiltölulega auðvelt með að finna upplýsingar sem þeir leita eftir, jafnframt því að auka rafræna stjórnsýslu sveitarfélagsins.

Á síðunni geta gestir hennar fengið aðgang að upplýsingum um þjónustu sveitarfélagsins og stofnana þess, auk upplýsinga um skipulag stjórnsýslunnar. Á síðunni er nú boðið upp á svæði sem kallast „Mín Fjallabyggð“ en það er íbúagátt þar sem bæjarbúar geta með rafrænum hætti sótt um þjónustu til sveitarfélagsins, sent inn formleg erindi, fylgst með framgangi sinna mála, komið ábendingum á framfæri og ýmislegt fleira.  Verið er að þróa þetta svæði og verður það vonandi komið í fulla starfsemi í byrjun janúar. Með tilkomu íbúagáttarinnar mun Fjallabyggð stíga stórt skref í átt að markmiðum sínum um skilvirka og ábyrga stjórnsýslu. Viðmesta breytingin frá gamla vefnum felst í þessari viðbót og jafnframt tengingu við ONE SYSTEMS skjalakerfið og birtingu á fundargerðum. Við lestur fundargerða munu lesendur síðunnar getað kallað fram gögn máls eftir því sem við á. Inn á „Mín Fjallabyggð“ þarf að skrá sig inn með Íslykli eða rafrænum skilríkjum.

Viðmót vefjarins er einfalt og stílhreint og er vefurinn byggður upp samkvæmt skipuriti sveitarfélagsins. Vefurinn skiptist í þrjá megin kafla; Stjórnsýsla, þjónusta og íbúar.

Vefurinn er uppsettur í vefumsjónarkerfinu MOYA frá STEFNU hugbúnaðarhús. Vefurinn er hannaður fyrir snjalltæki (Responsive web design) og er útlit stílað til fyrir þrjár gerðir af tækjum; snjallsíma, spjaldtölvu og venjulegar tölvur. Í kerfinu er nýtt einfalt viðburðadagatal og jafnframt er allt útgefið efni komið á annað form sem er nútímlegra og veitir þægilegra aðgengi að upplýsingum. Notendur síðunar geta nú notað „feed“ til að senda fréttir á Facebook og Twitter eða sett „like“ á fréttir.
Vefurinn mun verða í sífeldri þróun og rétt er að ítreka að íbúagáttin „Mín Fjallabyggð“ verður ekki komin í fulla virkni fyrr en í janúar. Athugasemdir við síðuna er hægt að senda á netfangið fjallabyggd@fjallabyggd.is