Ný fræðslustefna samræming og samvinna – Grunnskóli Fjallabyggðar og MTR

Mynd af heimasíðu MTR
Mynd af heimasíðu MTR

Ný fræðslustefna – samræming og samvinna – Grunnskóli Fjallabyggðar og MTR

Í byrjun núverandi skólaárs var upphafi skóladags í Menntaskólanum á Tröllaskaga breytt og hefst nú skólinn kl. 8.10 í stað 8.30 áður. Þetta var liður í því að stilla saman stundatöflur menntaskólans og grunnskólans þar sem það hentaði ekki grunnskólanum að hefja skóladaginn seinna. Stundatafla MTR var þannig aðlöguð að og stillt eftir óskum grunnskólans.

Samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla og 26. gr. laga um grunnskóla geta nemendur sem ekki hafa lokið grunnskólanámi hafið nám í framhaldsskóla samhliða í samráði við foreldra, viðkomandi framhaldsskóla og viðkomandi sveitarfélag. Allt námsframboð MTR stendur grunnskólanemendum til boða hafi þeir náð hæfniviðmiðum grunnskólans í viðkomandi fagi. Sérstakt eyðublað hefur verið gert þar sem skólastjóri grunnskóla staðfestir þetta áður en MTR tekur nemanda inn í nám. Forráðamenn staðfesta umsókn nemanda um nám í MTR.

Á haustönninni stunduðu nemendur GF nám í áföngum í blaki, vélmennafræði, inngangi að náttúruvísindum, ensku og stærðfræði. Alls voru þetta 13 nemendur í 1,7 nemendaígildum. Á vorönn stunda nemendur GF nám í ensku, stærðfræði, inngangi að listum og inngangi að félagsvísindum, alls 6 nemendur í 1 nemendaígildi.

Ýmist eru nemendur að taka áfanga við MTR sem valgreinar í grunnskólanum eða vegna þess að þeir hafa lokið grunnskólanámi í tiltekinni bóklegri grein s.s. ensku, stærðfræði eða íslensku. Með tilfærslu unglingastigs í starfsstöðina í Ólafsfirði eru aukin tækifæri fyrir nemendur til náms í MTR samhliða grunnskólanámi en áður hafði nám við MTR einungis verið bundið við fjarnám í þeim greinum sem það hentaði. Með samstilltum stundatöflum og nálægð skólana geta nemendur sótt kennslustundir í MTR.

Samstarfið hefur gengið einstaklega vel og kennarar MTR eru ánægðir með hvernig nemendur GF koma til skóla, eru í samstarfi og falla vel inn í hópinn. Íþróttakennarar vilja auka samstarf og telja sérstaklega að sérgreinaáfangar í íþróttum falli vel að elstu nemendum úr grunnskóla.
Framundan eru aukin tækifæri. Meðal annars eru hugmyndir um að samræma annir skólanna þannig að báðir starfi á tveimur önnum, það auðveldar alla samvinnu í tengslum við námsval og stundatöflugerð. Hugmyndir hafa komið fram um frekara samstarf í listgreinum og einnig er vilji til að skoða miðannaáfanga MTR. Þá er hugmynd um að setja upp samstarf í kringum FAB-LAB ásamt fyrirtæki í Ólafsfirði.