Norræna strandmenningarhátíðin á Siglufirði og Þjóðlagasetur hljóta styrki

Norræna strandmenningarhátíðin á Siglufirði og Þjóðlagaarfur Íslendinga verkefni á vegum Þjóðlagasetur sr. Bjarna þorsteinssonar hafa verið valin á dagskrá aldar afmælis fullveldis Íslands. 

Fullveldissjóður auglýsti eftir tillögum að verkefnum á dagskrá aldar afmælis fullveldis Íslands og hlutu alls 100 verkefni styrk úr sjóðnum. Alls bárust 169 tillögur og var sótt um rúmlega 280 milljónir króna.

Vitafélagið, íslensk strandmenning hlaut eina milljón króna vegna Norrænu strandmenningarhátíðarinnar NORDISK KUSTKULTUR sem haldin verður á Siglufirði dagana 4. – 8. júlí 2018.  Hátíðin ber yfirskriftina;  Tónlist við haf og strönd. Á sama tíma fer Þjóðlagahátíðin fram, auk þess sem Siglufjörður fagnar 100 ára kaupstaðarafmæli og 200 ára verslunarsögu. Markmið hátíðarinnar er að vekja athygli á strandmenningu þjóðarinnar sem einum merkasta hornsteini í menningararfi hennar og sögu. Þetta er gert með því að gefa sérfræðingum og almenningi tækifæri á að hittast, læra, miðla og skapa tengsl. Markmiðið er einnig að styðja strandmenninguna í allri sinni fjölbreytni og kynna hana fyrir almenningi. Hátíðin er samstarfsverkefni Vitafélagsins, Síldarminjasafnsins á Siglufirði og Fjallabyggðar.

Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði hlaut 400 þúsund króna styrk vegna verkefnis Þjóðlagaarfur Íslendinga í nýjum búningi. Markmið verkefnisins er að taka á upp í hljóði og mynd flutning á 20 íslenskum þjóðlögum úr Þjóðlagasafni Bjarna Þorsteinssonar sem kom út árið 1906. Þjóðlögin verða í nýjum búningi, þau útsett á einfaldan hátt fyrir söng og hljóðfæraleik til þess að gera þau aðgengilegri almenningi.

Upplýsingar um þau verkefni sem hlutu styrki er að finna á vef Fullveldishátíðarinnar fullveldi1918

Dagskrá aldarafmælis fullveldis Íslands er að finna á vef Fullveldishátíðarinnar fullveldi1918